149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:07]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti. Ferðaþjónustan mun skila einna mestum tekjum í þjóðarbúið. Ég tek eftir því við lestur fjárlagafrumvarpsins að útgjöld til málaflokksins, eins og það heitir í fjárlagafrumvarpinu, er 1/4 úr prósenti fjárlaga. Auðvitað geri ég mér fulla grein fyrir því að það eru útgjöld víða annars staðar til málaflokksins, eins og samgangna, heilbrigðiskerfis o.s.frv.

En það eru blikur á lofti í ferðaþjónustunni og hún virðist glíma við ákveðna erfiðleika. Hægt hefur á komum erlendra ferðamanna til landsins og eiga fjölmörg fyrirtæki í greininni í vanda. Nægir þar að nefna erfiðleika hjá stóru flugfélögunum tveimur. Þar kemur margt til eins og sterkt gengi krónunnar og hörð samkeppni sem íslensk ferðaþjónusta á í. Samkeppnishæfni Íslands sem áfangastaðar hefur þannig versnað til muna að undanförnu.

Komið hefur fram í fjölmiðlum að vinna sé í gangi á vegum stjórnvalda sem gengur út á að skoða möguleika á frekari gjaldtöku í ferðaþjónustunni. Hafa ber í huga að ferðaþjónustan er í dag stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein landsins.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra ferðamála hvort skynsamlegt sé í ljósi þeirrar viðkvæmu stöðu sem ferðaþjónustan virðist vera í að vinna að frekari gjaldtöku í greininni, á sama tíma og hún glímir við erfiðleika.

Einnig vil ég spyrja ráðherra hvers konar gjaldtaka hefur komið upp á borð hjá ríkisstjórninni og er fyrirhugað að fara í. Hvers lags gjaldtaka er það? Er það einhvers konar náttúrupassi eða komugjöld eða gistináttaskattur eða þjónustugjöld á ákveðnum ferðamannastöðum eða eitthvað annað?