149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:10]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góðar spurningar og yfirferð. Um gjaldtökumálin í heild sinni er það, eins og ég hef margoft rakið, orðin áralöng saga af alls konar hugmyndum. Að mörgu leyti er hægt að segja að það hefði átt að gera hitt og þetta öðruvísi en að sumu leyti held ég að þetta sé partur af því að bregðast við ótrúlega breyttum tímum.

Varðandi það sem vinnan gengur út á núna eru í fyrsta lagi engar tillögur komnar inn á borð ríkisstjórnar. Ríkisstjórnin hefur ekki fjallað um neinar mögulegar gjaldtökuleiðir á ferðaþjónustuna, enda er vinnuhópur að störfum sem í eru fulltrúar allra aðila í stjórnstöðinni og á sú vinna að klárast eftir um þrjá mánuði, ef ég fer rétt með.

Mér finnst umhverfið vera þannig nú, og verður örugglega áfram, að menn þurfi að fara varlega í sérstaka gjaldtöku og hugsa hana vel.

Við erum auðvitað með alls konar gjaldtöku. Hv. þingmaður nefnir gistináttaskatt. Hann er til staðar. Hér eru bílastæðagjöld. Hér eru ýmiss konar þjónustugjöld innan þjóðgarða og annars staðar. Þegar menn tala um gjaldtöku segi ég: Það er ekkert sjálfstætt markmið hjá mér að vera með einhvers konar gjaldtöku. Ég vil miklu frekar að það haldist í hendur við verkefni okkar um stýringu, um vernd náttúru, að hvert og eitt svæði sé sem sjálfbærast þegar kemur að því að geta byggt upp innviði og starfsemi sem það vill sjá.

Í mínum huga er mikilvægt t.d. varðandi þjóðgarða að þeir hafi þau verkfæri sem þeir þurfa til að geta brugðist við, að það sé ekki allt of miðstýrt héðan og við segjum þeim vinsamlegast að byggja gestastofur fyrir 400 milljónir þegar staðan er sú að það vantar 700 milljónir. En lykilatriðið er að aðhald sé með því að gagnsæi sé í því hvað verið er að nota slíka fjármuni í og að það sé sá fyrirsjáanleiki sem fyrirtæki í rekstri þurfa til að geta brugðist við slíku. Ég held að það sé heilt yfir lykilatriði.

Varðandi blikur á lofti er það eitthvað sem við tökum á ef til þess kemur.