149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:12]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Varðandi svar hennar vil ég leggja áherslu á að það er ekki að ástæðulausu sem ég spyr. Það hefur legið í loftinu í mörg ár að stjórnvöld hafa verið að undirbúa ákveðna og oftnefnda gjaldtöku á ferðaþjónustuna. Það verður að vera skýrt hjá ríkisstjórninni til framtíðar hvernig sú gjaldtaka á að vera. Það gengur ekki að stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar búi við slíkt óöryggi að þetta sé ekki ákveðið og ekki lögð fram stefna fyrir atvinnuveginn. Það er ekki hægt að láta þetta liggja í lausu lofti heldur verða að koma skýr svör. Ríkisstjórnin verður að mynda sér og gefa út stefnu í því hvort þetta á að vera og hvernig. Það má ekki bara liggja í loftinu.

Ég ætlaði að bæta við nokkrum spurningum þótt kannski gefist ekki tími til þess. Hvað varðar gjaldtökuna, hvernig sem henni verður háttað á atvinnuveginn, verður hún að vera vel skilgreind og hún verður að styðja við álagsstýringu eins og við viljum sjá hana um landið. Hún verður líka að vera til þess að bæta gæði og þjónustu á ferðamannastöðum.

Þarna komum við að rannsóknum, sem er reyndar búið að spyrja ráðherra um. Þetta verður að byggjast á rannsóknum sem eru unnar af einhverju viti, leggja verður þunga í rannsóknir þannig að við vitum hvert við erum að fara.

Ég ætla að bæta við einni spurningu til hæstv. ráðherra og hún er varðandi orkuverin. Hvað líður vinnu ríkisstjórnarinnar að undirbúningi lagasetningar á sviði vindorkuvera og sjávarfallaorkuvera?