149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:14]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Markmiðið með gjaldtökuhópnum sem nú er að störfum er að ljúka umræðunni og setja ákveðinn punkt aftan við, þrátt fyrir að ég viti vel að sá punktur verði ekki þar að eilífu. Ég myndi gjarnan vilja sjá okkur ná viðunandi samstöðu um að ljúka þeirri umræðu, þó þannig að eðlileg þróun geti verið í slíkri gjaldtöku, ef ég mætti orða það svo. Þá er ég aðallega að meina að markmiðið með gjaldtökunni sé skýrt. Markmiðið er að vernda náttúruna, tryggja upplifun ferðamanna og að gæðin séu til staðar. Það þýðir að svæði geti haft þau verkfæri sem þau þurfa til að byggja sig upp til þess að vernda náttúruna og tryggja upplifun ferðamannanna. Ég bind vonir við að hópurinn klári og við getum þá farið að snúa okkur í meira mæli að öðru.

Það hefur oft verið sagt að stjórnvöld hugsi ekki um neitt annað í ferðaþjónustu en gjaldtöku. Það er algjör fásinna. Ég held að langminnsti tími minn í ráðuneytinu fari í að huga því, þvert á móti fer hann í allt hitt sem við höfum verið að gera. Ég yrði sú fyrsta til að fagna því að geta klárað þetta verkefni. Við erum að vinna stefnuna sem hv. þingmaður nefnir. Ég er sammála því að rauði þráðurinn í gegnum þá vinnu er álagsstýring. Það finnst mér mikilvægast.

Varðandi rannsóknir og gagnaöflun og að þurfa að fara af krafti í það gleðst ég mjög yfir áhuga þingmanna á því. Það segir mér að ákveðin samstaða sé um þá forgangsröðun sem við höfum verið með undanfarin misseri, að setja svigrúmið að mestu leyti í rannsóknir og gagnaöflun. Ég horfi að mörgu leyti til sjávarútvegskerfisins þegar við skoðum hvernig við þurfum að þróa ferðaþjónustuna áfram, sérstaklega þegar kemur að (Forseti hringir.) náttúrunni, sem er langstærsti hlutinn.

Varðandi vindorkuna er sú vinna í gangi. Það er ekki á þingmálaskrá (Forseti hringir.) og er samstarf milli umhverfisráðherra og mín.