149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:17]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við fáum nær daglega slæmar fréttir af helstu atvinnuvegum sem hæstv. ráðherra er með á sviði sínu. Ég nefni sem dæmi ýmiss konar nýsköpunarfyrirtæki, kvikmyndageirann og ferðaþjónustuna. Sögurnar hafa allar sama meginstefið: Það er mjög dýrt að reka fyrirtæki hér á landi fyrir utan þann óstöðugleika sem gjaldmiðillinn veldur. Það er dýrt fyrir lítil sprotafyrirtæki, svo dæmi sé tekið, að sérhæfa sig í gjaldmiðlamálum til að geta gert sæmilega raunhæfar áætlanir og til að geta búið sig undir óhjákvæmilegar en jafnframt illa útreiknanlegar sveiflur í rekstri vegna gengisins.

Ríkisstjórnin hefur fyrstu mánuði í starfi miðað aðstoð sína við þær aðstæður út frá hinu gamla vonda vinstra stefi að koma inn með ríkisaðstoð, niðurgreiðslu í ýmsu formi. Sú aðferð er ekki einungis slæm fyrir það að ráðast ekki að rótum vandans heldur er hún líka slæm af því að hún skapar ójafnvægi í atvinnulífinu, vegna þess að stjórnvöld virðast samtvinna þær greinar sem fá aðstoð, jafnvel fyrirtæki sem eru verð slíkrar aðstoðar.

Í fyrri umferð langar mig að spyrja hæstv. ráðherra nýsköpunar- og þekkingargreina: Hverjar eru líkurnar á því að ríkisstjórnin fari að vinna í raunverulegum bótum á efnahagsumhverfinu, koma með raunverulegar lausnir gegn gengisóstöðugleika og raunverulegar lausnir gegn svimandi háum vaxtakostnaði í stað smáskammtalækninga?

Ég veit að hæstv. ráðherra ber ekki ábyrgð á svarinu ein, en sem ráðherra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti ættu akkúrat þau mál að vera henni hugleikin.

Ég þrengi því spurninguna og segi: Hvað, ef eitthvað, má lesa út úr fjárlagafrumvarpinu sem svar við þeirri ógn að lítil og lofandi sprotafyrirtæki og hálfvaxin nýsköpunarfyrirtæki vilja eða neyðast til að taka það skref að fara úr landi í leit að hagfelldara rekstrarumhverfi? Hvar sér þess stað í fjárlagafrumvarpinu að virkilega sé tekið mark á þeim sem hrópa á hjálp og lausna leitað?