149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:21]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er alveg hárrétt að heilmikið hefur verið gert og það er ýmsar góðar fréttir að fá. En það breytir ekki þeirri staðreynd að lykilmarkmið hlýtur að vera að búa til stöðugt umhverfi fyrir fyrirtæki þannig að þau geti blómstrað á eigin forsendum og séu ekki háð aðstoð.

Ég fagna því að ráðherra skuli segja að á næsta ári eigi að sjá þess stað í fjárlögum fyrir árið 2020 að þakinu verði lyft samkvæmt því sem segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og hefur verið stefnt að lengi í tíð annarrar ríkisstjórnar. En mig langar að vita af hverju það er ekki akkúrat núna. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á áðan er ætlunin að fyrirtæki hefji vegferð sína árið 2019 treystandi því að þetta komi inn í frumvarpið 2020.

Ég velti fyrir mér hvort óhætt sé fyrir fyrirtæki að treysta því að svo verði, hvort hér verði það efnahagslega ástand að ári að stjórnvöld treysti sér í þá vegferð. Ég velti líka fyrir mér hvort ástæða sé til að hafa áhyggjur af brostnum loforðum. Ég minni t.d. á loforð stjórnvalda varðandi Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þar hafa menn beðið heldur lengi eftir að loforð um úrbætur verði uppfyllt.

Spurningin er: Af hverju er þetta ekki núna? Hver er ástæðan?

Síðan velti ég fyrir mér varðandi þjóðarsjóðinn ágæta sem á að setja á laggirnar, á hann að vera sveiflujafnandi fyrir nýsköpunarfyrirtæki og önnur fyrirtæki í landinu gegn því ótrausta efnahagsástandi sem gengið veldur? Ég átta mig á því að það er flóknara fyrir stjórnvöld að tryggja efnahagsumhverfið og miða að því að hér verði gengisstöðugleiki og vaxtastöðugleiki en ef til lengri tíma er litið, (Forseti hringir.) er það ekki markmið frekar en að búa til þá umgjörð að fyrirtæki neyðist til að treysta á ríkisaðstoð í ýmsu formi?