149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:26]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég hef hér nokkur atriði, sérstaklega eitt sem ég vil ræða við hæstv. ráðherra. Í fjárlagafrumvarpinu er liður sem ber heitið rammaáætlanir Evrópusambandsins um menntun, rannsóknir og tækniþróun. Fjárveitingin nemur um 2,6 milljörðum fyrir 2019 í þennan lið og er hækkun milli ára 812 millj. kr. Þetta eru miklir peningar.

Það sem ég hefði viljað fá fram hjá ráðherra er hvað valdi þessari hækkun og hvort ráðherra geti upplýst hvar við Íslendingar stöndum þegar kemur að styrkveitingum úr þessari rammaáætlun, hversu háar fjárhæðir íslenskir aðilar, einstaklingar eða fyrirtæki hafa fengið. Þetta varðar rammaáætlanir Evrópusambandsins.

Síðan vil ég aðeins koma inn á lið í frumvarpinu sem heitir endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Þar er lækkun milli ára um 134 millj. kr. Eins og við þekkjum er kvikmyndagerð atvinnuskapandi og arðbær grein hér á Íslandi. Það má halda því fram að ríkissjóður sé í raun að tapa ef skorið er niður á þessum lið því að kvikmyndageirinn færir okkur mörg störf og mörg afleidd störf tengjast honum. Við vitum að menningarlegt gildi íslenskrar kvikmyndagerðar út frá hagfræðilegum sjónarmiðum er mikið.