149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:28]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrst varðandi rannsóknaráætlanir Evrópusambandsins geri ég ráð fyrir því að þetta sé einfaldlega vegna þess að íslensk fyrirtæki og fólk eru að senda inn þannig umsóknir að hlutfallið er bara þetta hátt. Þessi liður málefnasviðs 7 skiptist á milli annars vegar mín og hins vegar mennta- og menningarmálaráðherra og þessi hlutur er undir menntamálaráðherra þannig að hann ætti að gera svarað því nákvæmlega af hverju þessi upphæð er svona há. Ég held að það sé vegna þess að við séum bara að skila það góðum umsóknum inn í þennan sjóð að við fáum í raun hærra hlutfall en sem svarar stærð okkar innan samstarfsins.

Varðandi endurgreiðslur kvikmyndagerðar þurfti ég einfaldlega að forgangsraða hjá mér. Aðhaldið er lagt á þennan þátt. Það er mín ákvörðun en það er m.a. gert vegna þess að við höfum séð að það er að draga örlítið úr umfanginu. Ég mat það svo að í rauninni væri óhætt að gera það. Ef til þess kemur að það verður mikil sprenging í því er það svokallað lúxusvandamál sem við myndum taka á. En af því að hv. þingmaður kom inn á íslenska kvikmyndagerð og menningarlegt mikilvægi hennar tek ég algjörlega undir það en bæti því við að þessar endurgreiðslur eru auðvitað vegna hvers konar verkefna. Það eru myndir um kappakstursbíla í Hollywood sem fá líka endurgreiðslur vegna þess að það er umfangið á Íslandi sem er endurgreiðsluhæft. Ég vildi bara nefna að þetta snertir hvers konar starfsemi hér á landi sem varðar kvikmyndagerð en ekki bara íslenskar kvikmyndar um íslenska menningu eða náttúru.