149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:30]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég vil nota tækifærið og koma aðeins inn á ferðaþjónustuna. Nettótekjur ríkis og sveitarfélaga fyrir árið 2017 af ferðaþjónustunni voru um 60 milljarðar. Þetta er upphæð sem er nálægt því að kosta rekstur Landspítalans á einu ári. Gjaldeyristekjurnar einar og sér námu um 530 milljörðum. Við þekkjum það og það hefur komið hér fram margoft að þetta er orðin ein mikilvægasta atvinnugreinin okkar.

Mikill meiri hluti ferðamanna kemur til landsins vegna okkar fallegu náttúru og álag á helstu ferðamannastaðina er orðið mjög mikið. Uppbygging á ferðamannastöðum er því lykilatriði í móttöku ferðamanna.

Í fjárlagafrumvarpinu fer hækkun á fjárveitingum vegna uppbyggingar á ferðamannastöðum úr 700 milljónum í 1 milljarð, eða um 300 milljónir ef ég man rétt. Ég tel hins vegar að þetta sé engan veginn nægilegt.

Það sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra er hvort hún muni beita sér fyrir betri og réttlátari forgangsröðun fjármuna til ferðaþjónustunnar. Miðað við þær miklu tekjur sem ríkissjóður fær af ferðaþjónustunni ætti að verja mun meiri fjármunum í uppbyggingu á aðstöðu, meiri fjármunum í nauðsynleg verkefni. Það verður að forgangsraða í hlutfalli við mikilvægi greinarinnar. Það er í raun og veru réttlætismál. Ég vildi fá það fram hjá hæstv. ráðherra hvort hún muni beita sér fyrir þessari forgangsröðun sem greinin telur mjög mikilvæga.