149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Hv. þingmanni er nokkur vorkunn að stilla sér upp í andstöðu við þetta frumvarp en ég hef nú reynt hann að því að vera sanngjarn maður og mig langar til að reyna að nálgast þetta þannig. Mig langar að nefna nokkra punkta sem hann kom hér inn á. Þegar við erum að bæta milljarði inn í heilsugæsluhlutann kemur það auðvitað til með að endurspeglast í öllum landshlutum og áhersla á geðheilbrigðismál og geðheilsuteymi kemur líka til með að sjást þar. Áhersla á nýja þróunarmiðstöð heilsugæslunnar sem þjónar landinu öllu endurspeglar líka áhersluna á byggðasjónarmið í heilbrigðismálum.

Af því að hv. þingmaður orðaði það svo að biðlistar myndu lengjast áfram vona ég að honum hafi þá yfirsést að biðlistaátakið sem var upp á milli 800 og 900 milljónir á ári og hefði samkvæmt áætlun lokið á þessu ári er komið varanlega inn og mun áfram vera til þess ætlað að þjóna því að stytta biðlista eftir mikilvægum aðgerðum enda hefur íslensk heilbrigðisþjónusta náð umtalsverðum árangri í þeim efnum.

Ég vil líka nefna þá tölu sem ég nefndi áðan varðandi varanlega upphæð inn í rekstrargrunn heilbrigðisstofnananna úti um land. Ég vil líka nefna að það kom fram í viðtali við forstjóra Landspítalans – háskólasjúkrahúss, og ég held að það ætti að vera okkur öllum fagnaðarefni, að Landspítalinn telur að hér sé í raun og veru vel gert. Hann nefnir líka það sem mér finnst skipta miklu máli þegar við erum að ræða um heilbrigðisþjónustuna að hún hangir öll saman og þegar við erum að byggja upp hjúkrunarrými og heilsugæsluna kemur það líka til (Forseti hringir.) með að hafa góð og styrkjandi áhrif á aðra heilbrigðisþjónustu og þar með talið Landspítalann og heilbrigðisstofnanir úti um land.