149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:45]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það þarf miklu meira til en það sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi til að saxa á biðlista. Þeir hafa vissulega styst en það þarf meira til og við þurfum að nýta miklu betur þann búnað sem við eigum í landinu.

Ég sakna þess að sjá ekki í þessu frumvarpi miklu ríkari teikn um framtíðarhugsun og þá umgjörð sem við viljum búa eldri kynslóðinni. Hún felst ekki í að byggja 100, 200 eða 300 hjúkrunarrými, loforð um hjúkrunarrými sem ekki er svo staðið við, sem heldur eru ekki til peningar til að reka. Þar fyrir utan eru starfandi hjúkrunarheimili fjársvelt og sennilega vantar inn í rekstur núverandi hjúkrunarheimila 4,5 milljarða.

Þótt kallað sé mjög eftir fjölgun hjúkrunarrýma er vandinn að verulegu leyti fólginn í öðrum þáttum. Hann er ekki bundinn við steinsteypu heldur sterka, skýra sýn, breytt viðhorf, breyttar áherslur, bætt búsetuskilyrði og stuðning heima. Við höfum óskað eftir miklu skýrari áherslum í þessu. Þarna þurfum við auðvitað öll að taka okkur á, við þurfum að breyta samtalinu.

Mantran í þessum málaflokki hæstv. ráðherra sem fram kemur í frumvarpinu er þessi og kemur ítrekað fram: Mörkun heildstæðrar stefnu í heilbrigðisþjónustu í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar. Þetta er áréttað í hverjum reit í yfirliti frumvarpsins. Ég spyr því ráðherra því að tímasetningar skipta máli í þessu sambandi: Hvað líður þessari heildstæðu stefnu? Á hvaða stigi er hún og hvaða áætlanir eru um birtingar á einhverjum útlínum hennar? Telur ráðherra að ný og heildstæð stefna muni hafa áhrif á heilbrigðisþjónustuna þegar á næsta ári, bæði það sem lýtur að þjónustunni sjálfri og kostnaði?