149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:47]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni afar góðar spurningar og kannski fyrst og fremst það sem hann segir hér sem lýtur að þjónustu við eldra fólk. Ég er bara sammála hverju orði af því sem kemur fram í máli hv. þingmanns og held að við þurfum um leið og það er sannarlega þörf fyrir uppbyggingu hjúkrunarrýma að horfa miklu meira til sveigjanlegri úrræða og möguleika fólks á því að vera heima eins lengi og kostur er og að njóta þjónustunnar meira heima. Á dögunum var kynnt fyrir mér mjög áhugavert verkefni á Akureyri þar sem verið er að nýta það sem hefði verið rekstur tíu hjúkrunarrýma fyrir miklu stærri hóp í sveigjanlegri dagdvöl sem er 365 daga á árinu. Þessi sveigjanleiki þarf að vera fyrir hendi í öllu kerfinu og það verður þess vegna ekki þannig að það verði einhver miðstýrð nálgun á það hvernig á að nálgast þessa þætti. Og af því að hv. þingmaður talar hér um að hjúkrunarrými séu engin lausn og steinsteypa o.s.frv., bið ég hann um að hægja aðeins á sér í að tala um loforð sem ekki er staðið við því að ég er búin að vera ráðherra í níu mánuði þannig að ég er ekki búin að byggja öll hjúkrunarrýmin sem voru á planinu. Mér finnst mikilvægt að við hönnun þessara hjúkrunarrýma horfum við til þess að þau ráði við sveigjanleg úrræði en séu ekki svo stíf að þau komi ekki til móts við það. Ég býst við að við hv. þingmaður séum sammála um það.

Hv. þingmaður spyr líka um heilbrigðisstefnuna og tímasetningar í henni. Unnið hefur verið að undirbúningi í ráðuneytinu síðan í vor og ritstjóri heilbrigðisstefnunnar er aðstoðarmann minn, Birgir Jakobsson, fyrrverandi landlæknir, og það eru tveir vinnudagar skipulagðir með framkvæmdastjórum opinberra heilbrigðisstofnana og embætta sem heyra undir ráðuneytin í byrjun október. Síðan verður opið heilbrigðisþing 2. nóvember og stefnan verður síðan sett í samráðsgátt í einhverjar vikur og upp úr henni unnin þingsályktunartillaga sem er á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar og verður lögð fram á vorþingi.