149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:55]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Svo ég grípi boltann þar sem hæstv. ráðherra lauk máli sínu þá svaraði hún því ekki hvort hún ætlar að auka fjármagn til SÁÁ vegna þeirra talna sem kollegi minn kom með hér að framan. Ég las í nýlegri grein eftir hæstv. ráðherra að hún telur skorta á yfirsýn í heilbrigðismálum. Þess vegna er áhyggjuefni að hún mæti til leiks með rörsýn.

Rörsýnin birtist í því að höggva á á allt sem ekki er ríkisrekið. Síðan segir ráðherra í greininni, með leyfi forseta, eitthvað á þá leið að í sérfræðingakerfinu sem við höfum á Íslandi ráði tilviljun hverjir sinna hverjum og hvar.

Það er svo að sá sérfræðingahópur sem við höfum, sérfræðilæknar, tekur á móti jafn mörgum sjúklingum á ári og heilsugæslan og Landspítali til samans. Þetta er býsna víðfeðm tilviljun, verð ég að segja.

Sem notandi kerfisins get ég ekki tekið undir að það sé tilviljunum háð hvernig tekið er á móti fólki og hvaða meðferð það hlýtur.

300 sérfræðingar fara undan þjónustusamningi um áramótin og því spyr ég ráðherra, sem mætir til leiks með þessi skilaboð fyrir þann hóp vel menntaðra lækna, hvort hún ætli, vegna þess að ég hef ekki séð þess stað í frumvarpinu, að ganga til samninga við þá sérfræðinga og tryggja að þetta kerfi virki eins og það hefur gert með heilsugæslunni og spítalakerfinu. Mig langar að spyrja ráðherrann (Forseti hringir.) hvort vilji hennar standi til þess og hvort tryggt sé fjármagn í frumvarpinu til að hægt sé að gera samninga við sérfræðingana.