149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:57]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi verður auðvitað samið. Það gefur augaleið. Ég veit að talnaglöggur þingmaður eins og sá sem talaði á undan mér, þótt ég virði honum það til vorkunnar að vera ekki búinn að lesa allt frumvarpið frá einni blaðsíðu til annarrar, ætti að geta áttað sig á því að gert er ráð fyrir fjármagni í slíka samninga á næsta ári. (ÞorS: Gleður mig.)

Fyrst hann velur að fara mikinn í tali um rörsýn og að höggva á allt sem ekki er ríkisrekið o.s.frv. ætla ég að reyna að halda mig við efnisatriði málsins og segja (ÞorS: Sem eru?) að það sem ég er að gera og við í heilbrigðisráðuneytinu og velferðarráðuneytinu þegar við ræðum um að yfirsýn skorti í málaflokknum er að taka undir með Ríkisendurskoðun sem talar um ómarkviss kaup heilbrigðisþjónustu. Við tökum undir með McKinsey og fleirum sem hafa gert úttekt á íslenskri heilbrigðisþjónustu og segja að kerfið sé ósamstætt, brotakennt og leiði af sér samspil biðlista á annan vænginn og oflækninga á hinn.

Ég geri ekki ráð fyrir að hv. þingmaður myndi segja ríkisendurskoðanda vera í þeirri vegferð að höggva á allt sem ekki er ríkisrekið, eða að McKinsey þjáðist af rörsýn. En það kann þó að vera því að hv. þingmaður hefur svo sem stundum komið á óvart í orðalagi sínu og á kannski eftir að halda því áfram.