149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:01]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar og góðar óskir. Ég vil geta þess að ég hef verið í miklum samskiptum við Suðurnesjamenn og starfsfólk heilbrigðisstofnunarinnar þar en ekki síður sveitarstjórnarmenn og fulltrúa og forystu öldungaráðsins sem var hjá mér á fundi á dögunum. Heimamenn halda mér mjög vel við efnið þannig að það sé klárt og þingmaðurinn er þar fremstur meðal jafningja.

Fjárframlög til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sérstaklega hækkuðu um 50 milljónir í fjárlögum 2017 og var það vegna fjölgunar á svæðinu og fjölgunar ferðamanna í gegnum Leifsstöð. Í ár hækkuðu framlög til stofnunarinnar enn frekar eða um 54 milljónir þannig að fjárframlögin hafa í raun og veru hækkað um rúmar 100 millj. kr. á tveimur árum. Gerðar hafa verið ítarlegar og endurteknar úttektir á starfseminni á stofnuninni og þar eru tilteknar áskoranir til viðbótar við það sem hv. þingmaður fer hér yfir og stafa sérstaklega af fjölguninni. Ekki síst vegna þess að fjölgunin gengur svo hratt reynir hún mjög á innviði samfélagsins og ekki bara á heilbrigðisþjónustuna heldur alla innviði samfélagsins. Þess verðum við áskynja þegar við ræðum við sveitarstjórnarmenn og aðra.

Það er rétt að nefna líka læknamönnunina þarna sem snýst ekki beint um fjárframlög á fjárlögum heldur þá staðreynd að margir af þeim læknum sem starfa á heilbrigðisstofnuninni sinna verktakaþjónustu annars staðar. Það eru margar og fjölþættar áskoranir sem verða ekki allar leystar með auknum fjárframlögum þó að það sé sannarlega partur af viðfangsefninu. Í mínum huga eru öll þessi verkefni undir.