149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:04]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Ég vil benda henni á að aðeins launahækkun sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga til að koma til móts við Landspítalann, það þarf einhvern veginn 150 milljónir á ári í það. Við þurfum líka að ná þangað.

Ég veit að í dag, af því að ég hringdi upp á sjúkrahús, eru bara fjórir eða fimm læknar að störfum en þurfa að vera 15–16 á þessu svæði þannig að það er ekki vel mannað þessa dagana og ekki hægt að fá tíma fyrr en seinni partinn í október hjá lækni í dag. Mig langar að halda áfram og spyrja ráðherrann hvort hann telji ekki tímabært að láta fara fram faglega úttekt og greiningu á húsnæði Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, gera áætlun um endurbætur og uppbyggingu til að mæta kröfum tímans. Ég kom inn á fjölgun íbúa og á hverju ári til ársins 2040 mun t.d. starfsmönnum á Keflavíkurflugvelli fjölga um 400–500 manns, þ.e. eitt álver á ári eða sem nemur helmingnum af starfsmönnum Bláa lónsins.

Þá vil ég spyrja ráðherrann varðandi mönnun á dvalarheimilum á landsbyggðinni, hvort viðmið Landspítalans sé eðlilegt þegar um er að ræða þyngri sjúklinga, að það hvernig mönnun Landspítalans er í slíkum tilfellum og hvernig þeir bæta við starfsfólki sé viðmið á dvalarheimili á landsbyggðinni þar sem læknir býr kannski í tuga kílómetra fjarlægð, jafnvel 100, og á næturnar séu kannski tveir sjúkraliðar á vakt og það er jafnvel ekki bakvakt hjúkrunarfræðings. Þurfum við ekki að gera ríkari kröfur til þess að á landsbyggðinni sé öryggið aukið og þegar í hlut eiga þyngri sjúklingar þarf þá ekki að taka til greina aðstæðurnar á svæðinu versus aðstæðurnar á Landspítalanum þar sem eru tugir lækna (Forseti hringir.) og hjúkrunarfræðinga að störfum allan sólarhringinn og geta gripið inn í?