149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:06]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það kann að vera að ég hafi ekki heyrt nægilega vel þann hluta spurningarinnar sem laut að starfsmönnum í umönnun á dvalarheimilum á landsbyggðinni, þar sé miðað við mönnun á Landspítalanum. Samkvæmt mínum upplýsingum, ef það var spurningin — hv. þingmaður kinkar hér kolli mér til hugarhægðar — er það ekki svo að þessi viðmið séu lögð til grundvallar. Embætti landlæknis hefur gefið út mönnunarviðmið fyrir hjúkrunarrými sérstaklega.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um húsnæðið og ég hef heyrt ýmsar athugasemdir hvað varðar það, að sumu leyti snýst það um nýtingu þess og hvernig henni er best fyrir komið en að sumu leyti snýst þetta um aukna rýmisþörf í takt við breytta þjónustu. Þess ber að geta að fjármálaráðuneytið fer með ríkiseignir og ef það þarf að gera tiltekna úttekt á húsnæðinu og hvernig það þjónar starfseminni sem best þyrfti það væntanlega að vera verkefni sem væri í einhverjum skilningi sameiginlegt verkefni fjármálaráðuneytis og ráðuneytis heilbrigðismála. En vegna þess sem við vorum að ræða almennt held ég að það sé mjög mikilvægt að við endurmetum svolítið hvernig við ræðum um þessi mönnunarmál því að að hluta til er mönnun í heilbrigðisþjónustu auðvitað viðfangsefni heilbrigðisyfirvalda í stóru samhengi en það verður samt ekki og má ekki taka það af þeim sem bera ábyrgð á rekstri hverrar heilbrigðisstofnunar fyrir sig að sinna því að tryggja viðunandi mönnun á sinni starfsstöð. Þannig verður það að vera. Við verðum að koma okkur út úr miðstýringarhugsun yfir í það að ábyrgðin sé heima, hún sé í héraði, hún sé þar sem fólk upplifir og skilur þörfina fyrir þjónustu, skilur sérstöðuna eins og hv. þingmaður heldur hér vandlega til haga vegna þess að ef við ætlum að leysa öll mál við skrifborð (Forseti hringir.) í Reykjavík erum við ekki í takti við fjölbreytta búsetu á Íslandi.