149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:08]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég fór í stjórnmál upphaflega var staða Landspítalans. Það var því mjög ánægjulegt símtal sem ég átti í gær við Pál Matthíasson, forstjóra Landspítalans, þegar hann tjáði mér að hann væri mjög sáttur við fjárlagafrumvarpið eins og það lítur út. Ég þráspurði hann hvort það væri virkilega satt og spurði um alla málaflokka sem snúa að rekstri spítalans og, já, hann var, eins og er líka hægt að sjá í grein í Morgunblaðinu í dag, mjög sáttur við þetta.

Síðustu daga hef ég fengið gagnrýni fyrir að hrósa ríkisstjórninni og einstaka ráðherrum fyrir það sem ég lít á sem mjög vel unnin störf vegna þess að þá sé ég mögulega að fórna mína pólitíska kapítali. Ég hef engan áhuga á pólitísku kapítali sem snýst um það að ég sé ekki að starfa hér af heilindum fyrir þing og þjóð. Upphaflega voru Píratar stofnaðir til að þurfa ekki að vera til sem stjórnmálaafl en við þurfum enn þá að vera til, en mér finnst þetta bara ánægjulegt og ég vil hrósa hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir hennar störf svo það sé skjalfest.

Páll Matthíasson talaði hins vegar um mönnun. Ó, hvað ég vildi að ég hefði meiri tíma. Ókei, ég ætla að fara þá mjög hratt yfir sögu. Það sem ég sé og lít á að þurfi að lækna í þessu samfélagi — okkar núverandi samfélagsgerð hefur fengið falleinkunn. Við sjáum hræðilegar forsíðufréttir um ungmenni sem eru að deyja af völdum fíknar og sjálfsvígs. (Forseti hringir.) Ég féll þarna innilega á tíma. Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hún hafi áform um áframhaldandi meðferðarúrræði fyrir ungmenni og hvort hún hafi hug á því að gera lyfið Naloxon aðgengilegra, það er nefúðalyf sem getur bjargað mannslífum. (Forseti hringir.) Nei, ég ætla að halda aðeins áfram, nokkrar sekúndur. [Hlátur í þingsal.] Við þurfum samfélagslegt átak núna, fíkn er svo mikið heilbrigðisvandamál. (Forseti hringir.) Við Píratar höfum talað fyrir því og höfum sagt að við þurfum að afglæpavæða fíkniefni. Við þurfum að afglæpavæða (Forseti hringir.) veikindi.