149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar inngang. Ég hef stundum sagt að Píratar hafa oft verið hér í fylkingarbrjósti í varðstöðu fyrir Landspítalann og ég hef stundum sagt að við gætum myndað sérstök hollvinasamtök Landspítalans hér innan húss. Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir og það er kannski efni í einhverja stærri og heimspekilegri umræðu um það til hvers við erum hér og um hvað snýst pólitík og þessi krafa um heilindi. Ég vil segja það við hv. þingmann að ég held að við lifum miklu lengur sem stjórnmálafólk ef við höfum kjark í það að vera heil. Það er mín skoðun.

Það er rétt og auðvitað mjög mikilvægt sem hv. þingmaður er að segja, við vorum báðar á sérstöku málþingi um sjálfsvíg á dögunum. Sú aðgerðaáætlun sem þar var til umfjöllunar er í raun og veru afurð af miklu starfi þeirra sem best þekkja í þessum málaflokki og þeim hóp var gert að skila til heilbrigðisráðherra skýrslu með gagnreyndum aðferðum til að stemma stigu við fjölda sjálfsvíga, ekki vangaveltum heldur gagnreyndum aðferðum. Ég hef skoðað þessi gögn. Embætti landlæknis heldur á þessu verkefni en ekki síður grasrótarsamtök og fulltrúar aðstandenda o.s.frv. sem hafa á eigin skinni orðið fyrir höggum af þessu tagi. Mér finnst afar mikilvægt að halda svona vinnu lifandi, þ.e. leyfa henni að virka áfram og nota slagkraftinn sem er núna í umræðunni um þessa hræðilegu hluti til að beina okkar kröftum, en þá verðum við líka að muna að halda alltaf samhenginu öllu undir. Hv. þingmaður var pínu dramatískur þegar hann talaði um að samfélagsgerðin væri búin að renna sitt skeið o.s.frv., en það er samt svolítið (Forseti hringir.) umhugsunarefni ef svona mörgum líður illa í ríku samfélagi. Þá er eitthvað sem er ekki alveg rétt að því er varðar (Forseti hringir.) gildismat og forgangsröðun í samfélaginu okkar. Ég þakka bara hv. þingmanni fyrir spurninguna og vænti þess að eiga liðsmann (Forseti hringir.) í henni hér eftir sem hingað til í þessum efnum.