149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:14]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Tíminn er naumur og ég er með margar spurningar til ráðherra þannig að ég ætla að leyfa mér að demba mér beint í þær án nokkurrar framsögu og vona að ráðherrann nái að svara sem flestu. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í fyrsta markmiðið í kafla um lýðheilsu, forvarnir og eftirlit, en þar á að efla heilsu og heilbrigða lifnaðarhætti. Ein af aðgerðunum sem á að fara í til að mæta því markmiði er að hvetja til og styðja við heilsueflandi samfélag. Mig langar að spyrja ráðherra: Hvað felur sú aðgerð í sér? Hvað þýðir það?

Varðandi markmið 3 í kafla 24, sem fjallar um heilsugæslu, sem snýr að því að lækka tíðni sjúkdóma sem rekja má til lífshátta langar mig að forvitnast hvort verið sé að tala um reykingar og vímuefni eða hvort horft sé til mataræðis, mengunar, álags, vanlíðunar og áfalla. Þar sem sjúkdómar sem rekja má til lífshátta eiga við um svo marga þætti samfélagsins sakna ég þess að sjá ekki heildrænni nálgun þar sem aðgerðir eru samræmdar þvert yfir málasvið og yfir ráðherra. Mun ráðherra vinna að því markmiði í samstarfi við aðra ráðherra eða mun hver og einn vinna í sínu horni?

Síðan óska ég ráðherra til hamingju með meðmæli forstjóra Landspítalans með fjárlagafrumvarpinu. Það er frábært. En mig langar líka að spyrja um endurreisn heilbrigðiskerfisins sem hefur verið í gangi og hvar við erum stödd í því verkefni. Erum við enn þá í enduruppbyggingarfasanum? Ég geng út frá því að við séum enn þá þar, en hvenær verður þá þeim fasa lokið og skila þessi fjárlög okkur þangað? Er með fjárlagafrumvarpinu dekkuð þörfin hvað varðar fjármagn og starfsfólk?

Ég spyr að lokum, afsakið hvað þetta eru margar spurningar: Mun ráðherra koma til með að koma kostnaðargreiningu til þingmanna og nefnda svo að við getum gert okkur grein fyrir því hvað fer mikið fjármagn í hverja aðgerð og þannig tekið upplýstari afstöðu til fjárlaganna? Það er svo erfitt að átta sig á því varðandi aðgerðirnar hvað fer í hvaða verkefni.