149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:16]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég ætla þá að dengja mér líka beint í svörin. Hv. þingmaður spurði fyrst um alveg gríðarlega mikilvægt verkefni sem er heilsueflandi samfélög. Mér finnst spurning hv. þingmanns brýna mig og ráðuneyti mitt og líka embætti landlæknis í því að við þurfum að tala meira um það verkefni vegna þess að þar er undir allt sem hv. þingmaður nefndi, allt sem lýtur að mataræði, svefni og alls konar öðrum þáttum sem lúta að heilsu og lýðheilsu alla ævi. Landlæknisembættið hefur unnið, og það er mjög löng og ítarleg vinna sem liggur þar að baki, í því að setja saman lýðheilsuvísa sem eru mælikvarðar til þess að skoða, bæði á milli landshluta en ekki síður frá einu ári til annars, hvort við séum á réttri leið eða ekki. Sú staðreynd að 85% íbúa Íslands búa í sveitarfélagi sem hefur undirgengist það að fara í slíkt verkefni með landlæknisembættinu segir okkur að sveitarfélögin eru a.m.k. mjög meðvituð um að þetta er verkfæri sem við getum notað betur. En ég held að við eigum að nota brýninguna til að leggja til við landlæknisembættið að sérstök kynning verði á lýðheilsuvísum í hv. velferðarnefnd, á því hvernig utan um þá er haldið, hvernig þeir eru þróaðir og hvers konar verkefni þeir eru um heilsueflandi samfélag og annað slíkt. Ég held að það sé mikilvægt. Við verðum að fara að setja meiri og vaxandi þunga á lýðheilsu og forvarnir.

Hv. þingmaður spurði hvar við værum stödd í umbreytingaferlinu. Það er alveg rétt hjá henni að við erum stödd mjög snemma í því en mín afstaða er sú að um leið og við vitum a.m.k. hvert við erum að fara — við erum að leitast við að tryggja að við séum með heildstæða heilbrigðisþjónustu sem er skiljanleg, sem er góð og rétt fyrir sjúklinga, sem er góð og rétt fyrir þá sem þjónustuna veita og sem skilar því besta sem mögulegt er, bestu heilbrigðisþjónustunni fyrir okkar sameiginlega framlag úr sameiginlegum sjóðum. Þetta er líka það sem Íslendingar vilja, við höfum sé það í rannsóknum og undirskriftasöfnunum o.s.frv., þannig að við vinnum í samræmi við vilja samfélagsins.