149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Þessi umræða er alveg gríðarlega mikilvæg, ekki síst ef við horfum aðeins um öxl, ekkert ógurlega langt, á umfjöllunina sem var hér fyrir rúmu ári, eða kannski nákvæmlega ári, að því er varðar brotaþola kynferðisbrota og stöðu þeirra og réttindi í íslensku samfélagi.

Myllumerkið #höfumhátt gekk ljósum logum á internetinu og á svipuðum tíma kom aðgerðaáætlun, sem var þá á forræði dómsmálaráðherra, um aðgerðir í þágu brotaþola kynferðisbrota. Þegar þessi ríkisstjórn er sett á laggirnar í desember 2017 er tekin ákvörðun um að fullfjármagna þá aðgerðaáætlun, bæði vegna þess að þörfin var gríðarleg en ekki síst vegna þess að það hefði verið furðulegt annað en að setja þetta mál mjög framarlega á dagskrá eftir það sem á undan gekk í íslenskum stjórnmálum og í umræðunni um þennan alvarlega þátt í íslensku samfélagi og þá baráttu sem fólk hafði háð fyrir réttarbótum.

Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að þetta er auðvitað verkefni margra ráðuneyta, þarna er dómsmálaráðuneytið, menntamálaráðuneytið, félagsmálaráðuneytið og ekki síður sveitarfélögin. Varðandi það sem lýtur að ráðuneyti mínu og þeim verkefnum sem þar eru undir eru þessir þættir alls staðar á blaði, hvort sem varðar þjónustuna sem veitt er á Landspítalanum og við höfum stutt við og eflt eða annað. Svo er það mikilvægur þáttur varðandi neyðarmóttöku fyrir fórnarlömb kynferðisbrota á Landspítalanum að sú þjónusta sem þar er verið að byggja upp geti verið bakland fyrir sambærilega þjónustu úti um land þar sem þörf er á. Það þarf aukna faglega handleiðslu sem víðast um landið vegna þess að þetta er viðkvæm þjónusta sem þarf að vera fagleg og skýr.