149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:25]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Sem betur fer hefur Alþingi horfst í augu við þau mikilvægu verkefni á undanförnum misserum að tryggja eins og nokkur er kostur réttindi fatlaðs fólks í íslensku samfélagi. Við vitum að það eru enn þá brotalamir mjög víða, ekki bara í framkvæmdinni heldur þarf líka að taka til í löggjöfinni hvað þetta varðar. Það vil ég nefna með almennum hætti.

Hins vegar er það þannig að um leið og við leggjum aukna áherslu á aukna teymisvinnu í öllu heilbrigðiskerfinu, allri heilbrigðisþjónustunni, sama hvort það er í heilsugæslunni, á sjúkrahúsunum, heilbrigðisstofnunum úti um land eða annars staðar, erum við að styrkja faglega færni íslenskrar heilbrigðisþjónustu til að takast á við samsettan vanda. Með því að við hverfum frá því að sjúklingurinn sé einn og viðmælandinn í heilbrigðisþjónustunni sé einn og við gætum að því að einstaklingurinn sprettur úr einhverju félagslegu samhengi, bæði í sínu nærumhverfi, í sinni fjölskyldu, í bakgrunni, menntun og væntingum o.s.frv. og að heilbrigðisþjónustan mæti viðkomandi líka á breiðum grunni með teymisnálgun og fjölbreytta sérfræðiþekkingu, erum við að draga úr hættunni á því að flókin samsett viðfangsefni, eins og til að mynda fötlun, geðraskanir, fíkn og aðrir slíkir þættir, lendi út á jaðrinum.

Ég vil svara þessu með þeim hætti almennt að ég tel að með því sem verið er að gera, og auðvitað ekki bara á Íslandi heldur er þetta almenn tilhneiging í þróun heilbrigðisþjónustunnar um veröld víða, að auka teymisvinnu og fjölga fjölbreyttum starfsstéttum í heilbrigðisþjónustu, erum við að tryggja betri þjónustu fyrir alla og þar með talið þann hóp sem hv. þingmaður nefnir.