149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:27]
Horfa

Jónína Björk Óskarsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Það er mér sannarlega heiður að fá að standa hér í þessum æðsta stól þjóðarinnar og fá að segja mín fyrstu orð hér. Á bls. 362 í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að fjárveitingar til sjúkra- og iðjuþjálfa hafa verið 5.300 milljónir á síðasta ári en eru nú 5.500 milljónir sem er aukning um 4,4% og er vel. En nú má alltaf spyrja hvernig þessu er forgangsraðað hjá Iðjuþjálfafélaginu. Til dæmis nefni ég að í dagvistarúrræði er sjúkra- og iðjuþjálfun sem er til þess að halda hreyfi- og færnigetu einstaklingsins til athafna og daglegs lífs sem bestri. Svo verður þessi sjúklingur því miður aðeins verr á sig kominn og þó sérstaklega einstaklingurinn sem annast um hann heima. Þá kemur það úrræði að viðkomandi er sendur í sex vikna hvíldarinnlögn sem er vel en á móti kemur að í hvíldarinnlögninni fær hann ekki þessa sjúkra- eða iðjuþjálfun. Þar af leiðandi horfum við upp á að einstaklingur eftir þessa hvíldarinnlögn kemur heim mjög illa á sig kominn. Heima er aðstandandi sem var að hugsa um hann og við getum bara séð fyrir okkur hvernig ástatt verður fyrir þeim sem þarf að taka á móti og annast viðkomandi sem er algjörlega óhæfur til athafna daglegs lífs.

Þetta mál fer á milli velferðarráðherra og heilbrigðisráðherra. (Forseti hringir.) Þetta er í einhverri skúffu sem við þurfum að opna og því biðla ég til hæstv. heilbrigðisráðherra að opna nú þessa skúffu og fara ofan í þennan pakka.