149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Ég ætla að byrja á öfugum enda. Hún spyr um greiðslukerfið í heilsugæslunni sem búið er að innleiða á höfuðborgarsvæðinu. Því er til að svara að það er auðvitað eðlilegt og það er markmið að sama greiðslukerfið verði líka í heilsugæsluhluta heilbrigðisstofnana úti um land. Sú breyting er í farvatninu. Þess mun vonandi sjá stað á allra næstu mánuðum, misserum í mesta lagi, en samkvæmt upplýsingum mínum úr ráðuneytinu er það í ferli.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður um mismunandi einingaverð, ef svo má að orði komast, annars vegar á Landspítalanum og hins vegar á öðrum heilbrigðisstofnunum. Hún segir að það sé óheillaþróun og spyr hverju sæti og hvort við þurfum ekki að jafna það, ef ég skil spurningarnar rétt. Í því efni þurfum við að gæta að því að í heilbrigðislögum er ein heilbrigðisstofnun sem hefur skilgreininguna háskólasjúkrahús og það er Landspítalinn. Sjúkrahúsið á Akureyri sem er líka sérhæft sjúkrahús hefur til viðbótar þá skilgreiningu að vera kennslusjúkrahús. Þegar um slíkar viðbætur í skilgreiningu á hlutverki heilbrigðisstofnunar er að ræða sér þess stað í fjárframlögum til viðkomandi stofnunar.

Þarna erum við að tala um það grundvallarhlutverk að sinna menntun heilbrigðisstétta til framtíðar. Þetta er númer eitt.

Númer tvö er það sem lýtur að rannsóknum og þróun. Það er þekkt viðmið í þeim efnum að háskólasjúkrahús sem eru slík móðurskip í heilbrigðiskerfi séu að jafnaði með um 15% hærra framlag á einingu en aðrir aðilar, og það er engin uppfinning hér á Íslandi. Við þurfum að tryggja að háskólasjúkrahúsið standi undir (Forseti hringir.) þeim væntingum að geta verið móðurskip fyrir heilbrigðisþjónustuna í heild.