149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:41]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég þakka svarið. Þetta eru hlutir sem ég veit fullvel. Það sem ég spyr að er: Af hverju skilar þetta sér í greiðslu til mismunandi stofnana fyrir tiltekin læknisverk? Það er ekkert samband þar á milli. Það er auðveldlega hægt og ætti að vera hægt að hafa það þannig að sértækar heilbrigðisstofnanir sem gegna einar sérstöku hlutverki fái það greitt. En að hafa ekki tilgreind verk, greiða ekki fyrir þau sama verð, eykur á ógagnsæi.

Mér var nær að vera svona jákvæð í byrjun áðan, það fór svo mikill tími í það. Ég þarf að finna aftur fókusinn.

Mig langar að nefna eitt. Í fjárlagafrumvarpinu er töluvert um fjárfestingar. Hæstv. ráðherra hefur margoft komið inn á að það er mikilvægt og allt slíkt en minna er talað um framlög til reksturs og breytingarnar í sjálfu sér ekki svo miklar sé tekið tillit til mismunandi fjárlaga þessara tveggja ára og síðan millifærslna af safnliðum þar á milli — en það er samt ekki umræðuefnið hér. Mig langar aðeins að benda á að fjárlagafrumvarpið tekur lítið á því máli sem þó er bleiki fíllinn, þ.e. gegnsæi í fjármögnun í rekstri heilbrigðiskerfisins.

Nefndur er sérstaklega DRG-samningur Landspítalans. Þetta sjúkdómaflokkunarkerfi hefur lengi verið notað á sjúkrahúsum sem kostnaðargreiningartæki, svona grunnur undir framleiðslutengda fjármögnun ef svo má segja. Það er fínt en mér sýnist, og spyr hvort það sé rétt, að það eigi líka að vera greiðslugrunnurinn í nýju fjárlögunum fyrir Landspítala. Það hefur verið reynt víða. Það hefur verið reynt í Svíþjóð eins og menn þekkja, sem grunnur, en horfið hefur verið frá því og farið að hluta til baka vegna þess að þetta eykur kostnað. Þarna er sá sem selur þjónustuna kominn með mjög góð tækifæri til ofþjónustu.

Ég spyr hvort það sé rétt skilið að DRG-kostnaðargreining Landspítalans sé ekki aðeins kostnaðargreiningartæki heldur líka notuð sem greiðslugrunnur. Og í tengslum við það, vegna þess (Forseti hringir.) að ég veit að vinnan við kostnaðargreininguna hefur nær öll verið í höndum Landspítalans, spyr ég: Hver er þekking sérfræðinga innan ráðuneytis heilbrigðismála og innan Sjúkratrygginga á því kerfi? Líður hæstv. heilbrigðisráðherra vel með það? Er hún sannfærð um að stýring heilbrigðismála, stefnumótun og eftirlit sé raunverulega á höndum heilbrigðisyfirvalda með þessu fyrirkomulagi?