149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir brýninguna í því hvar yfirsýnin á að vera. Mig langar að segja í því samhengi að mér finnst umhugsunarefni þegar ég kem inn í heilbrigðisráðuneytið hversu miklu betur við gætum gert í því að hafa sterkan, tölulegan grunn bak við ákvarðanir í ráðuneytinu sjálfu. Oft er það allt of mikið þannig að við þurfum að sækja upplýsingar annað til að byggja ákvarðanir okkar á. Það er sérstakt áhyggjuefni eða a.m.k. umhugsunarefni.

Hv. þingmaður fer yfir framleiðslutengda fjármögnun og DRG-kerfið o.s.frv. Það er í farvatninu hjá Landspítalanum að innleiða þá framkvæmd til að tryggja gagnsæi. Ég er sammála hv. þingmanni að það verður að vera hafið yfir vafa en það sleppir okkur ekki við það sem ég fór yfir áðan um mismunandi hlutverk einstakra heilbrigðisstofnana, sem hv. þingmaður tók reyndar undir. Ég legg mjög mikla áherslu á að gegnsæi sé í öllum þeim efnum og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef undir höndum er kannski hvergi í íslensku heilbrigðiskerfi eins skýr og góð greining bak við það sem verið er að gera og á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Sú þekking sem þar liggur til grundvallar á því hvað er verið að gera og hvað það kostar er töluverð. Þetta kom fram í skýrslu McKinseys. Þar var farið mjög ítarlega yfir það.

En það er löngu tímabært að fara yfir í kerfið sem hv. þingmaður nefnir til að tryggja að fjármögnunin sé gagnsæ, á pari við þær aðferðir sem verið er að beita annars staðar í kerfinu, til þess að það sé sambærilegt sem er rétt að bera saman, svo við sitjum ekki uppi með að bera saman epli og appelsínur í kerfinu. Ef við erum með sameiginlegan staðreyndagrunn er líka auðveldara fyrir okkur að taka ákvarðanir.