149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:46]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér þátt heilbrigðisráðherra og heilbrigðisráðuneytisins í fjárlagafrumvarpinu. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt um erum við hér að tala um eina 230 milljarða, gríðarlega mikla peninga.

Það er víða verið að gera vel. Það er verið að bæta peningum inn í Landspítalann, auka fjármögnun á uppbyggingu spítalans, stórauka framlög til heilsugæslunnar, geðheilbrigðisstefnan er fullfjármögnuð og það er stefnt að lækkun kostnaðar fyrir sjúklinga. Allt afar mikilvægir þættir.

En það sem mig langar í fyrri ræðu að spyrja hæstv. ráðherra er: Hvar stendur vinnan varðandi heilbrigðisstefnuna? Hvenær megum við búast við að sú vinna og það grundvallarplagg sem heilbrigðisstefnan væntanlega verður líti dagsins ljós? Það er kallað eftir þessari stefnu, ekki bara hér á Alþingi heldur líka úti í samfélaginu. Það er kallað eftir því að við stýrum heilbrigðiskerfinu eftir vitum en ekki eftir tilfinningu, að við vitum hvert við ætlum að fara og að þau tæki sem við erum með í höndunum á hverjum tíma hjálpi okkur að komast þangað.