149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:48]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr um stöðu heilbrigðisstefnunnar og þeirrar vinnu. Ég vék aðeins að þessu í andsvari fyrr í umræðunni. Staðan er þannig núna að vinna hefur staðið yfir síðan í vor. Við stefnum að því á allra næstu vikum eða raunar í byrjun október að halda fund um stefnuna ásamt heilbrigðisstofnunum okkar, þ.e. spítölum og heilbrigðisstofnunum og heilsugæslunni og stjórnendum þar, til að fara yfir einstaka þætti.

Síðan er komin dagsetning á heilbrigðisþing sem er fyrirhugað 2. nóvember. Þar gefst tækifæri til opinnar umræðu. Ég held að það sé afar mikilvægt, í ljósi þess að við erum vonandi að tala hér um stefnu sem stendur af sér pólitískar sviptingar og breytingar á ríkisstjórnum o.s.frv., að það sé skýr aðkoma þeirra sem best þekkja til.

Hins vegar verður að vera alveg skýrt að heilbrigðisstefna er stefna stjórnvalda í málaflokknum, sem yrði þá með stuðningi frá Alþingi. Heilbrigðisstefna verður aldrei lægstur samnefnari allra sem hafa einhverja hagsmuni af því að vera annaðhvort þiggjendur eða veitendur heilbrigðisþjónustu. En samtalið verður að eiga sér stað og þar verður að hlusta.

Það er að taka á sig mynd með hvaða hætti köflum er skipt í heilbrigðisstefnunni svoleiðis að nú ætla ég að nota þetta æsispennandi tækifæri þar sem eru ekki mjög margir þingmenn í þingsal til að segja þjóðinni frá því að þar verður m.a. kafli um stjórnun heilbrigðisþjónustu sérstaklega, veitingu þjónustu, um gæði og gæðaviðmið, um vísindi, um mannauð og fleiri tiltekna (Forseti hringir.) þætti þar sem sjónum er beint þangað sem við þurfum helst að skerpa fókus.