149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:50]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Í seinni ræðu minni langar mig að ræða aðeins það sem ég hef áhyggjur af varðandi fjárveitingar í fjárlagafrumvarpinu með tilliti til heilbrigðisþjónustunnar.

Það er í fyrsta lagi það sem snýr að rekstrargrundvelli hjúkrunarheimilanna. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er komið inn á að skoðað verði hvort sá rekstrargrunnur sé nægilega góður. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvort sú vinna sé ekki örugglega farin af stað í ráðuneyti hennar og þá hvenær við megum búast við að sjá til lands í þeim efnum. Hjúkrunarheimilin kalla eftir því og við höfum heyrt ákall þeirra þar um.

Í öðru lagi vil ég inna ráðherra eftir því hvort það sé ekki örugglega rétt skilið hjá mér, og raunar held ég að ráðherra hafi komið aðeins inn á það fyrr í dag, að þær fjárveitingar sem ætlaðar eru til Sjúkratrygginga vegna sérfræðiþjónustu verði örugglega notaðar og gerður verði samningur við sérfræðilækna.

Það hefur því miður verið þannig umræða úti í samfélaginu og jafnvel verið dreift, við skulum segja þeim ranghugmyndum að ekki standi til að semja um þann þjónustuþátt. Ég held að mjög mikilvægt sé að ráðherra tali skýrt hvað það varðar og myndi vilja heyra sjónarmið hennar með tilliti til þess hvort það standi til eða hafi verið rætt að skoða tilvísanir eða einhvers konar slíkt kerfi inn í þeim samningum til að hjálpa heilbrigðisyfirvöldum að hafa stjórn á þeim kostnaði sem þar er.