149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:52]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn fyrir spurningar hans og vangaveltur. Ég vil segja í fyrsta lagi varðandi það sem hv. þingmaður nefnir, og hefur verið töluvert í umræðunni í samfélaginu að undanförnu og lýtur að þjónustu sérgreinalækna og samningi Sjúkratrygginga Íslands við þá og rammasamninginn sem er að renna út núna um áramót, að það liggur algjörlega í hlutarins eðli og þarf ekki meira en að horfa á fjárlagafrumvarpið til að sjá að þar er gert ráð fyrir tilteknum upphæðum og tölum í samningi við sérgreinalækna. Mér reiknast til að sú tala gæti verið 9–10 milljarðar kr. á árinu 2019. Ég vænti þess að sérgreinalæknar hafi áhuga á að semja um þau mál með einhverju móti en það er líka ljóst að við í ráðuneytinu þurfum í samræmi við ábendingar og gildandi lög um opinber innkaup og ábendingar ríkisendurskoðanda o.s.frv. að tryggja að þau samskipti séu rétt, þ.e. að þjónusta sé boðin út og að gengið sé til samninga um tiltekna þætti.

Ég vænti þess að þeir sem eru þátttakendur í þeim hluta íslenska heilbrigðiskerfisins hafi áhuga á því að eiga slíkt samtal. Ég hef það alltént.

Hv. þingmaður nefndi tilvísunarkerfi eða einhvers konar þjónustustýringu og það er eitt af því sem okkur er bent ítrekað á að taka þurfi til skoðunar, að með einhverju móti þurfi að vera hliðvarsla í heilbrigðiskerfinu þar sem heilsugæslan stendur undir nafni sem fyrsti viðkomustaður og beini þá sjúklingum áfram sé þess þörf með öllum þeim fyrirvörum.

Loks spurði hv. þingmaður um rekstrargrunn hjúkrunarheimila. Um það er fjallað sérstaklega í stjórnarsáttmálanum. Þar er vikið orðum að því atriði (Forseti hringir.) og það er partur af stóru myndinni sem er undir þegar við skoðum breytingu á aldurssamsetningu þjóðarinnar og aukna þjónustu fyrir þá sem eru að komast á efri ár.