149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:08]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir fjárlögum fyrir málaflokka 12 og 13 sem eru landbúnaður annars vegar og sjávarútvegur og fiskeldi hins vegar. Samkvæmt því frumvarpi sem liggur fyrir eru heildarútgjöld þessara tveggja málefnasviða rétt tæpir 23 milljarðar og skiptast þannig að tæpir 6,4 milljarðar eru til sjávarútvegs og fiskeldis og 16,5 milljarðar, rétt rúmir, til málefnasviðsins landbúnaður. Samanlagt renna því um 2,5% prósent af ráðgerðum heildarútgjöldum ríkisins á árinu 2019 til þessara tveggja málaflokka.

Ef ég fer aðeins í málaflokkana og byrja á sjávarútvegsmálum háttar þannig til að megináherslan í sjávarútvegsmálum er lögð á að efla hafrannsóknir þannig að Íslendingar geti haldið áfram að bæta þekkingu sína á lífríki sjávar með það að meginmarkmiði að stuðla að því að fiskveiðiráðgjöfin á hverjum tíma byggi á bestu fáanlegu þekkingu sem völ er á.

Eins og við þekkjum öll gegnir Hafrannsóknastofnun lykilhlutverki og verkefni hennar hafa aukist stórum á undanförnum árum. Um þessar mundir er stofnunin að vinna að og framkvæma viðamikla rannsókn og kortlagningu á hafsbotninum við Ísland og fá yfirlit yfir auðlindir þar, auk þess sem unnið er að kortlagningu búsvæða lífvera. Jafnframt hefur stofnunin fengið núna á síðustu árum æ veigameira hlutverk á sviði fiskeldismála.

Hins vegar er svo komið á þessu málefnasviði að við þurfum að fara að einbeita okkur að því að bæta aðbúnað og skipaflota stofnunarinnar svo hún verði betur í stakk búin til þess að sinna hlutverki sínu miðað við þær kröfur sem gerðar eru til hafrannsókna í dag.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að Hafró fái aukin framlög til húsnæðismála og komi sér fyrir í nýju og glæsilegu húsnæði í Hafnarfirði. Gert er ráð fyrir að það gerist á árinu 2019 þar sem bryggjuaðstæður fyrir skipin og geymslur eru góðar fyrir búnað vegna útgerðar.

Við erum að vinna að því að styrkja stjórnsýslu fiskeldis í ráðuneytinu og í stofnunum þess til að bregðast við auknum umsvifum á því sviði. Meðal annars í þeim tilgangi mælti ég í vor fyrir frumvarpi til laga um fiskeldi. Ég mun endurtaka þann leik í haust þar sem lagt verður upp með að styrkja rannsóknir, vöktun, starfsumhverfi, stjórnsýslu fiskeldismála og sömuleiðis gjaldtöku af þeirri starfsemi sem þarna er. En í tengslum við sjávarútvegsmálin vil ég fagna sérstaklega þeirri samþykkt og einróma ákvörðun sem Alþingi tók á hátíðarfundinum í sumar um byggingu hafrannsóknarskipsins sem er langþráð verkefni á þessum sviðum og mun stuðla að því að við verðum áfram í fremstu röð þjóða á sviði rannsókna og lífríki og umhverfisþáttum í hafinu.

Í landbúnaðarmálum er flestallt í föstum skorðum, eðlilega. Þar eru útgjöld nokkuð stöðug frá ári til árs, enda byggja þau fyrst og fremst á þeim búvörusamningum sem eru í gildi á hverjum tíma. Þannig háttar til að við erum með búvörusamning núna sem er í gildi til ársins 2026 með endurskoðunarákvæðum inni árið 2019 og 2023. Ég óskaði hins vegar eftir því við starfshóp um endurskoðun búvörusamninganna að þeir einbeittu sér að því að endurskoða fyrst af öllu starfsskilyrði sauðfjárræktarinnar. Það verk stendur yfir núna. Ég vænti þess að við getum komið fram með tillögur í því efni síðar í haust.

Ég vil nefna í því sambandi varðandi landbúnaðarmálin að í nýrri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er gert ráð fyrir að sauðfjárbændum standi til boða þátttaka þar í verkefnum, m.a. á sviði landnotkunar, og tel að þar inni geti falist veruleg tækifæri fyrir bændur.

Loks vil ég nefna að við erum að vinna að ýmsum verkefnum til að efla nýsköpun og orðspor Íslands sem matvælaframleiðanda. Þar vil ég sérstaklega nefna tvö verkefni, annars vegar gerð matvælastefnu og síðan er verið að vinna að stefnu um opinber innkaup matvæla.

Til viðbótar þessu má svo nefna að við erum með í ákveðnu ferli að samþætta starfandi sjóði á sviði landbúnaðar- og sjávarútvegsmála með það í huga að geta staðið betur að því (Forseti hringir.) að efla nýsköpun á þessu sviði matvæla.