149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:13]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Eins og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fór yfir eru fjölmörg áhugaverð verkefni sem heyra undir hæstv. ráðherra. Það er ýmislegt sem vekur athygli í frumvarpinu hvað varðar málaflokka hæstv. ráðherra. Mögulega hefði verið augljósast ef ég færi að velta upp spurningum í tengslum við boðaða lækkun veiðigjalds með tilliti til þess sem fram kemur í frumvarpinu á bls. 90, með leyfi forseta:

„Stofnunin leggur til að aflamark þorskveiða verði aukið um 3% á næsta fiskveiðiári, aflamark ýsu verði aukið um 40% og aflamark ufsa um 30%.“

Neðar á blaðsíðunni kemur svo fram:

„Talið er að ný ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar geti leitt til aukinna útflutningsverðmæta eða sem nemur 8 milljörðum kr. Það svarar til u.þ.b. 4% aukningar í útflutningsverðmætum.“

Sannarlega jákvæðar fréttir þar á ferð og hefði verið gaman að spyrja hæstv. ráðherra út í hvort hann sjái ekki tækifæri í því að bjóða út þessa viðbót. Ég ætla ekki að spyrja um það og ég ætla ekki að taka það samtal við ráðherra nú, heldur langar mig til að ræða landbúnað og það metnaðarleysi sem virðist endurspeglast í framlögum til rannsókna, þróunar og nýsköpunar í landbúnaðarmálum.

Mikil umræða hefur verið undanfarið um stöðu landbúnaðar, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, einkum um erfiða stöðu sauðfjárbænda. Eitt af því sem hefur verið rætt til þess að reyna að styrkja stöðu þeirra og auka verðmæti afurða þeirra er einmitt nýsköpun í landbúnaði með áherslu á að auka verðmæti bæði grunn- og hliðarafurða framleiðslunnar. Það er hins vegar ekki að sjá í frumvarpinu að hæstv. ráðherra telji ástæðu til að styðja við slíka nýsköpun, því að eins og víðar í frumvarpinu gagnvart nýsköpun eru fjárheimildir til rannsókna, þróunar og nýsköpunar í landbúnaði lækkaðar um 27,9% sem skýrast reyndar að einhverju leyti vegna niðurfellingar tímabundinna framlaga, en niðurskurður samt sem áður og engin aukning.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig sér hann fyrir sér stuðning við uppbyggingu nýsköpunar í landbúnaði?