149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:27]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar kemur fram að fyrirhugað sé að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á veiðigjöldum í kringum mánaðamótin, eins og fram hefur komið í ræðustól. Fram kemur að gildandi lög um veiðigjöld falli úr gildi í lok árs og því sé nauðsynlegt að endurnýja þau. Líka kemur fram að endurskoðun laganna sé í samræmi við áherslur í stjórnarsáttmála. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að við endurskoðun laga um veiðigjöld þurfum við að hafa það að meginmarkmiði að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar og að þau taki tillit til afkomu. Auðlindagjöld eigi annars vegar að vera greiðsla fyrir aðgang að takmarkaðri auðlind og hins vegar arðgreiðslur af nýtingu hennar.

Í vor var lagt fram frumvarp af stjórnarmeirihlutanum, sællar minningar, um lækkun veiðigjalda, sem meiri hlutinn var reyndar gerður afturreka með. Hefði það frumvarp orðið að veruleika hefði stærsti hluti ágóða lækkunarinnar farið til aðila á borð við Samherja, en fram kom fyrir stuttu að Samherji hefði skilað hagnaði upp á 14,4 milljarða kr. og greitt út talsverðan arð. (Gripið fram í.)

Í ljósi hagnaðar Samherja og fleiri sjávarútvegsfyrirtækja virðist ekki vera þörf á því að lækka veiðigjöld eftir því formi sem reynt var í vor. Ég spyr ráðherra hvort slík lækkun standi til og hvort ekki væri betra að halda veiðigjöldunum óbreyttum og geta þá nýtt fjármunina til að efla sjálfbæra auðlindanýtingu, rannsóknir og þróun, eins og talað er um í stjórnarsáttmálanum. Þykir ráðherra jafnvel tilefni til þess að hækka veiðigjöld í ljósi góðrar afkomu?

Á sviði sjávarútvegs ætlaði ég að bæta við einni örstuttri spurningu í lokin. Ráðherra minntist á nýtt hafrannsóknaskip en við finnum hvergi hvernig eigi að fjármagna það skip. Við fáum ekki séð að framlögin séu greind neins staðar, hvar eigi að leggja fram peninga í nýtt hafrannsóknaskip. Ég spyr ráðherra einfaldlega: Hvar er þá fjármögnun að finna?