149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:30]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þegar spurt er um veiðigjöldin svara ég hv. þingmanni eins og ég svaraði síðasta fyrirspyrjanda: Frumvarp frá mér um þau kemur fram, eins og hv. þingmaður gat réttilega um, öðrum hvorum megin við mánaðamótin. Ég vænti þess og vona að við getum gert það fyrir mánaðamót. Ég held að við þurfum tíma til þess að komast í gegnum þá umræðu sem frumvörp á því sviði kalla á.

Það er rétt að stjórnarsáttmálinn kveður á um að veiðigjöldin standi undir kostnaði sem ríkið hefur af umsýslu með auðlindinni og sömuleiðis að tryggja ríkinu einhverja hlutdeild í afkomu fyrirtækjanna.

Þegar spurt er um hvort ég vilji að veiðigjöldin séu óbreytt svara ég með þeim hætti að þau eiga í mínum huga að taka mið af því hvernig afkoma útgerðarinnar í landinu sveiflast. Ég vek athygli hv. þingmanns á því að sennilega eru nokkur hundruð kennitölur í útgerð á landinu. Varðandi veiðigjöldin er það þannig að afkoma þeirra sem standa í útgerðinni er afar breytileg, eins og kom fram í andsvari áðan. Við getum fundið fullt af dæmum um fyrirtæki sem ganga vel og um önnur sem ganga mjög illa. Þannig er það í öllum öðrum atvinnurekstri.

Meginsjónarmið mitt er að við eigum að leggja þann skatt á með það í huga að hann taki þeim breytingum sem verða á starfsaðstæðum útgerðarinnar hverju sinni.

Varðandi hafrannsóknaskipið er það hárrétt hjá hv. þingmanni. Eins og kemur fram í texta frumvarpsins gerum við ráð fyrir því að það komi inn í fjárlögin. Mínar upplýsingar herma að ástæðan fyrir því (Forseti hringir.) að það er ekki komið inn í fjármögnunina þrátt fyrir einróma samþykkt Alþingis á hátíðarfundinum á Alþingi sé sú að talnabálkurinn var kominn í gang og það var einfaldlega of seint að koma samþykkt Alþingis (Forseti hringir.) inn í gögnin til að prenta inn í frumvarpið.