149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:32]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég þakka heldur óljós svör. Mér þykir svolítið skrýtið að fá ekki svör við því og að ráðherra lýsi sig ekki viljugan til að svara hvort til standi að hækka veiðigjöldin, lækka eða láta þau standa í stað. Er rétt skilið hjá mér að ráðherra viti einfaldlega ekki hvað eigi að gerast í kringum mánaðamótin þegar kemur að hækkun eða lækkun veiðigjalda? Það hlýtur að hafa einhver áhrif á fjárlögin sem við ræðum.

Hvað varðar fjármögnun þessa skips, getur ráðherra upplýst mig hversu mikið er áætlað að fari í skipið á þessu ári? Ætlar fjárlaganefnd að bæta því inn? Hvernig ætlum við að ráðstafa þeim peningum og hvaðan eiga þeir að koma?

Aðeins að landbúnaði. Mig langar að spyrja sérstaklega út í EFTA-dóminn sem hefur komið nokkuð oft upp. Í nóvember á síðasta ári komst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að leyfisveitingakerfið fyrir innflutningi á hrárri og unninni kjötvöru, eggjum og mjólk, samrýmdist ekki ákvæðum EES-samningsins. Dómstóllinn taldi það vera ósamrýmanlegt 5. gr. tilskipunarinnar að skilyrða innflutning á slíkum vörum. Við getum séð á þingmálaskrá að fyrirhugað er að leggja fram frumvarp í febrúar um innflutning á hráum kjötvörum og þar með eigi að bregðast við þeim dómi.

Á bls. 280 í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að fjárheimild málaflokks landbúnaðarmála hækki um 85 millj. kr. vegna aðgerða í tengslum við niðurstöður EFTA-dómstólsins varðandi innflutning á hráu kjöti. Í hvað nákvæmlega á að nota þá fjármuni? Eru einhverjar aðgerðir sem ráðherra er að fara í umfram þá lagabreytingu sem er að vænta á næsta ári? Í hvað á að eyða þeim 85 milljónum sem eiga að bregðast við því? Hvað á að gera við peningana? Ég fæ ekki séð út úr fjárlagafrumvarpinu nákvæmlega hvað eigi að gera við þær 85 milljónir.