149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:35]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Veiðigjöldin eiga í mínum huga að taka mið af þeim athugasemdum sem m.a. komu fram í umræðunni í vor, þ.e. að færa álagningu þeirra nær í tíma og sníða af ýmsa vankanta sem lúta að álagningunni, sem allir sem tóku til máls í vor játuðu að þyrfti að bæta. Hvort veiðigjöld hækka, lækka eða standa í stað mun sveiflast með afkomu útgerðarinnar. Þannig háttar til að við sjáum í öllum tölum yfir heildarafkomu útgerðar að því miður gengur verr hjá henni en gerði t.d. fyrir þremur, fjórum árum. Það er bara þannig og það er staðreynd. Gjöldin munu taka mið af þeim veruleika.

Ég bendi á að bæði í fjármálaáætluninni sem samþykkt var í vor og í fjárlagafrumvarpinu núna er gert ráð fyrir því að afkoma í sjávarútvegi í heildina versni. Þess vegna til að mynda er sú tala í fjárlögunum og fjármálaáætluninni, sem ef ég man rétt er um 7 milljarðar kr.

Varðandi skipið er það samþykkt sem Alþingi Íslendinga gerði. Þetta var sameiginleg tillaga frá formönnum allra stjórnmálaflokka, sem þeir settu fram. Ég vænti þess og treysti því eðlilega að fjárlaganefndin, sem er skipuð fulltrúum allra flokka, fari að þeirri tillögu sem Alþingi sjálft hefur sett. Það er von mín og trú að svo verði. Mér þætti annað óeðlilegt, svo að ég svari hv. þingmanni hreint út, og geri ráð fyrir því að þetta verkefni komi inn. Gert er ráð fyrir því í tillögunni að þetta séu 3,4 milljarðar sem falli til á árunum 2019–2023.

Varðandi EFTA-dóminn erum við að vinna að viðbrögðum við honum. Við höfum átt viðræður m.a. við bæði ESA og Evrópusambandið. Þessar 85 milljónir fara að stærstum hluta í að styrkja Matvælastofnun, t.d. í eftirlit á markaði, uppsetningu einhvers kerfis, sem var ekki til til þess að mæta (Forseti hringir.) áhrifum af þeirri niðurstöðu sem við fengum í nóvember í fyrra. (Forseti hringir.) Við erum einfaldlega að byggja upp innviði okkar til að takast á við nýjan veruleika.