149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:37]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu og hefur verið í dag frumvarp ríkisstjórnarinnar til fjárlaga fyrir árið 2019. Efnahagslíf undanfarinna ára hefur einkennst af vexti og má sjá þá þróun víða í þjóðfélaginu, atvinnugreinar blómstra og gott atvinnuástand, launahækkanir og kaupmáttur góður. Heildarútgjöld til landbúnaðar fyrir árið 2019 eru áætluð 16,5 milljarðar og lækka um 33,5 milljarða á föstu verðlagi. Ég ætlaði eins og hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir að minnast á lækkun á liðnum Rannsóknir, þróun og nýsköpun í landbúnaðarmálum, sem ég hef nokkrar áhyggjur af, en hæstv. landbúnaðarráðherra hefur útskýrt að það sé vegna lækkunar til Landbúnaðarháskólans. Ég teldi að þetta ætti að vera í einhverjum forgangi núna þar sem ríkisstjórnin er að leggja fram mjög metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum og þessi geiri ætti að vera nokkuð ofarlega hvað varðar rannsóknir og þróun. Ég vona að þetta sé eitthvað sem hægt er að beina meiri athygli að.

Þá langaði mig samt til að nefna eina grein hér á landi sem ekki hefur fylgt hagvextinum, það er sauðfjárræktin. Það er ekki ofsagt að vandi sauðfjárbænda sé mikill þessi misseri. Afkoman í greininni hefur verið á niðurleið síðustu þrjú ár. Afurðaverð hefur hríðfallið og markaðir lokast og verið að gefa eftir og ekki eftirsóknarvert að elta þá uppi.

Í því sambandi vil ég nefna í fyrri ræðu minni að það sem er mjög mikilvægt í þessu máli og í landbúnaðarmálum er matvælastefnan. Mig langar til að spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra hvar sú vinna er stödd og hvenær megi vænta niðurstöðu úr henni.