149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:39]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, það er rétt að afkoma sauðfjárbænda er ekki góð. Ég vil engu að síður meina að Alþingi hafi brugðist ágætlega við í desember á síðasta ári þegar samþykkt voru aukaframlög inn í þessa grein sérstaklega, upp á 665 millj. kr.

Engu að síður er hljóðið úr greininni með þessum hætti og við vitum að við erum að framleiða töluvert umfram innanlandsneyslu og höfum lent í erfiðleikum með það að afsetja aðra framleiðslu erlendis, þó svo að óvenjuvel hafi gengið í ár þannig að birgðir eru með lægsta móti á þessu ári.

Eins og ég nef nefnt í fyrri andsvörum erum við í ágætisviðræðum við sauðfjárbændur. Ég vænti þess og treysti að við munum ná saman á grundvelli þeirra ákvæða sem í stjórnarsáttmálanum eru sem kveða á um nýja nálgun á þessu verkefni. Ég vona heitt og innilega að við berum gæfu til að komast að samkomulagi tímanlega í haust þannig að við getum keyrt þessar breytingar helst í gang um áramót.

Hv. þingmaður spyr um matvælastefnuna. Þessi vinna er tiltölulega nýlega farin af stað. Verkefnisstjórnin sem þarna er að störfum á að hafa forgöngu um það að móta matvælastefnu fyrir landið og draga fram áherslur stjórnvalda eins og þær birtast í stjórnarsáttmálanum ásamt því að við reynum að fá einhverjar tillögur sem snúa að framtíðarsýn fyrir málaflokkana. Verkefnaskil í þessu eru þannig að ég á að fá til mín áfangaskýrslur í janúar 2019 og september 2019 með það að markmiði að við getum verið með heildstæða stefnu á þessu sviði í árslok á næsta ári, þ.e. í lok ársins 2019.