149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:42]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Svo ég víki aftur máli mínu að sauðfjárbændum þá erum við með, eins og hæstv. ráðherra talaði um áðan, búvörusamning sem er nú ekki nema tveggja ára og átti að gilda í tíu ár sem ég tel að við eigum að nýta okkur.

Sauðfjárbændur sjálfir hafa talað um að til þess að mæta þessum vanda þyrftum við kannski að horfa til framleiðslunnar, minnka hana í samræmi við eftirspurn og markaði til þess að ná jafnvægi. Inni í þessum samningi sem er mjög góður og við gætum fylgt eru kannski framleiðsluhvetjandi þættir sem við þyrftum að endurskoða og ég vona að í vinnu með sauðfjárbændum og fulltrúum þeirra verði þessi samningur nýttur. Mig langar kannski aðeins að spyrja hæstv. ráðherra hvort verið sé að horfa til þess eða til nýrra leiða í þessu sambandi.

Við þurfum að ná utan um sauðfjárbændur og mér finnst við þurfa að hlusta á þeirra raddir vegna þess að þeir hafa komið með góðar hugmyndir í þeim vanda sem hefur verið að byggjast upp á síðustu tveimur, þremur árum. Þó að maður geti séð það í þessu frumvarpi að þessi samningur sé ekki einhver draumsýn, enda ætti það kannski heldur ekki að vera, vil ég spyrja hvort fylgt verði eftir samningnum sem er í gildi, hvernig þeirri vinnu er háttað og hvar hún sé stödd.