149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:44]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að í samningnum eru framleiðsluhvetjandi þættir. Það er einhver staða sem bæði sauðfjárbændur og við viljum einhvern veginn taka úr sambandi.

Sauðfjárbændur sjálfir hafa sett fram ákveðnar hugmyndir um að gera 67 ára og eldri bændum kleift að hætta búskap eða draga úr búskap. Þeir hafa sett fram hugmyndir um að lækka ásetningshlutfall. Þeir hafa sett fram hugmyndir um að frysta gæðastýringargreiðslur. Allar þessar þrjár aðgerðir kalla á lagabreytingar og áður en ég get komið fram með frumvarp í þá veru þarf að eiga sér stað eitthvert samtal um það með hvaða hætti útfærslan á þessu yrði.

Ég hef ekki neitað nokkurri einustu tillögu frá sauðfjárbændum en ég hef sett það sem algjört skilyrði fyrir því að við tökum upp samninginn að áherslur stjórnvalda eins og þær birtast í stjórnarsáttmálanum um breytingar á starfsskilyrðum greinarinnar nái fram að ganga. Það er algjörlega útilokað í mínum huga að framlengja óbreyttan samning eins og hann er. Þá lendum við bara í sömu stöðu og við erum í núna. Með öðrum orðum, það sem ég held til streitu inni í þessum viðræðum er að þær hugmyndir sem stjórnarsáttmálinn byggir á komi inn í þessar viðræður líka. Sem betur fer tekur forysta sauðfjárbænda því ágætlega, vissulega sumu með ákveðnum fyrirvörum eins og ég hef fyrirvara á sumu sem kemur þaðan en við erum þó að ræða þetta með það að markmiði að ná saman. Það verða breytingar á gildandi ákvæðum í búvörusamningnum en sömuleiðis þættir þar sem horft er til lengri tíma og inn í framtíðina með einhverjum breytingum á starfsskilyrðum greinarinnar. Þar verður meginatriðið í mínum huga að bændur hafi meira frelsi til athafna en þeir hafa í dag.