149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:46]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera laxeldi að umtalsefni mínu við sjávarútvegsráðherra. Ég er nýkomin frá Færeyjum þar sem Vestnorræna ráðið var í heimsókn. Þar sem sjávarútvegsráðherra verður tíðrætt um vísindarannsóknir og öruggari umgjörð um sjávarauðlindina með því að fylgja eftir því sem er best og gerst fyrir hana langar mig sérstaklega að vekja athygli á því að við þurfum ekki að finna upp hjólið aftur hvað það varðar og ráða til okkar marga aðila umfram það sem við getum lært af t.d. Norðmönnum, sem eru langt á undan okkur hvað varðar umgjörðina um sitt laxeldi, og af Færeyingum, sem tóku upp nánast óbreytt regluverk Norðmanna og aðlöguðu að sínu. Það kemur líka í ljós þegar talað er um vernd náttúrunnar að á tveggja vikna fresti mæla þeir lús, sýklalyf og óhreinindi, úrgang og mengun við kvíarnar.

Spurningin er þessi, hæstv. sjávarútvegsráðherra: Hvernig er mögulegt fyrir okkar að ætla að halda því fram að hér sé ekki endalaust að sleppa fiskur? Tvívegis á þessu ári hefur sloppið fiskur úr Arnarlaxi. Það hafa veiðst eldislaxar í Staðará og Vatnsdalsá, báðum ánum sem renna í Húnaflóa. Í Selá var eldishrygna full af hrognsekkjum og í fleiri ám. Í Tálknafirði veiddust fjórir í net eftir að slysið varð hjá Arnarlaxi.

Mér er þetta virkilega hugleikið. Ég vil endilega að við byggjum laxeldið upp af skynsemi en það er of seint í rassinn gripið þegar allt er komið í buxurnar í þeim efnum. Ég segi: Horfum til þeirra sem hafa virkilega unnið að þessu með stæl og lært af reynslunni og gerum það virkilega að okkar.

Það kemur svo pínulítið meira á eftir, hæstv. ráðherra.