149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:48]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Við lærum af bæði Færeyingum og Norðmönnum. Það frumvarp sem ég kom fram með í vor dró lærdóm af því sem þar er gert á báðum stöðum. Frumvarpið byggði á sameiginlegri sýn fiskeldisfyrirtækja og veiðiréttarhafa.

Því miður náði þingið ekki að vinna með það og þar voru inni atriði sem m.a. lúta að þeim þáttum sem hv. þingmaður nefndi varðandi vöktun á lús, mengun o.fl. Það er í frumvarpinu sem ég skilaði af mér í vor. Við höfum sömuleiðis átt fundi með Færeyingum. Ég sat fundi fyrir hálfum mánuði í Færeyjum þar sem við fórum sérstaklega yfir alla þá þætti.

Í síðustu viku var hér sendinefnd frá norska ráðuneytinu og við fórum í gegnum fiskeldið þar. Þetta er allt til undirbúnings því verki sem kemur vonandi inn í nóvember, sem er nýtt frumvarp til fiskeldismála. Hins vegar eru aðstæður á svæðunum mjög mismunandi. Eins og hv. þingmaður þekkir eru straumar á eldissvæðum t.d. í Færeyjum allt aðrir en í tiltölulega grunnum, lygnum fjörðum á Íslandi. Firðir í Noregi eru kaldir, djúpir staðir, firðir á Íslandi eru uppeldisstöðvar, m.a. fæðu botnfisksseiða. Það er því aldrei og verður aldrei hægt að heimfæra eina tiltekna aðferð frá fjarlægu svæði yfir á aðstæður sem við glímum við. Við munum alltaf hafa okkar sérstöku aðstæður á Íslandi.

Ég fagna því þegar hv. þingmaður segir að hún vilji vinna að því að byggja upp laxeldi á Íslandi. (Forseti hringir.) Ég held að við deilum alveg skoðun í því (Forseti hringir.) en við erum, vænti ég, á sama stað í því að ekki er sama hvernig það verður gert. Þar þurfa menn að vanda sig (Forseti hringir.) og ég tek undir þau orð þingmannsins. (Forseti hringir.) En ég er talsmaður þess, eins og raunar kemur fram í stjórnarsáttmálanum, (Forseti hringir.) að við höfum fulla trú á því að fiskeldinu muni vaxa fiskur um hrygg.

(Forseti (JÞÓ): Forseti áminnir ræðumenn að halda ræðutíma í hófi.)

Afsakið, forseti.

(Forseti (JÞÓ): Afsökunin móttekin og þakka sömuleiðis.)