149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:53]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það erfitt að þurfa að kyngja því ef hv. þingmaður er bara með brúnaðar kartöflur, rauðkál, rabarbarasultu, grænar baunir og sósu. (IngS: Og engar kótelettur. ) — Og engar kótelettur. Það er (Gripið fram í.) ekki nógu gott. En eins og við munum frá ágætri ræðu hv. þingmanns í stefnuræðunni á þriðjudaginn má alla vega fá sér rauðvín með því. (IngS: … já, já, já.)

Það er held ég miklu auðveldara um að tala en í að komast að ætla að þrykkja öllu laxeldinu á land. Af hverju er þá ekki búið að gera það í öðrum löndum? Það er meira mál en svo að það sé gert. Við erum með örlítið laxeldi á landi á Íslandi (Gripið fram í.) — Já, já, það gengur ágætlega. Við höfum hins vegar verið að ala miklu meira af bleikju en laxi á landi og það er einhver ástæða fyrir því. (Gripið fram í.)

Ég er raunar þeirrar trúar að laxeldi á Íslandi verði aldrei annað en framleiðsla á hágæðavöru. Við erum alltaf á einhverjum endamarkaði. Við munum aldrei vera í magnframleiðslu á þeirri afurð, að minni hyggju. Ég hef ekki trú á því að svo verði.

Af því að ég svaraði því ekki áðan þá heldur enginn því fram að hér veiðist ekki eldislax annað slagið í laxveiðiám. Það er þannig og við skulum ræða það á þann veg. Við höfum hins vegar ekki búið okkur undir það með mótvægisaðgerðum, en erum þó að byrja það núna. Hafrannsóknastofnun er að byggja undir að geta tekið á því vandamáli á skynsamlegan hátt. Við erum m.a. að setja upp myndaeftirlit í þremur ám á landinu sem greina eldislaxa og þess vegna lýs á viðkomandi fiskum. Við tökum því ákveðin en hæg skref. Vonandi getum við gert þetta skynsamlega með það í huga að bæði brothættum byggðum og fyrirtækjum geti gengið þokkalega vel. (IngS: Þú náðir ekki …)