149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:05]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Á síðasta þingi óskaði Miðflokkurinn eftir sérstakri umræðu um tollasamning Íslands og Evrópusambandsins um landbúnaðarvörur. Áttum við þar í hreinskiptnum skoðanaskiptum við hæstv. landbúnaðarráðherra um málið. Ég hef ekki farið leynt með skoðanir mínar á þessum samningi sem ég tel mjög óhagstæðan Íslandi og íslenskri landbúnaðarframleiðslu. Miðflokkurinn mun flytja á þessu þingi þingsályktunartillögu um að þessum óhagstæða samningi verði sagt upp og samið upp á nýtt, ekki síst í ljósi þeirrar óvissu sem hefur skapast með þennan samning, nú þegar eitt af okkar helstu viðskiptalöndum, Bretland, er að fara úr Evrópusambandinu og þar með úr tollasamningnum um leið.

Herra forseti. Í áðurnefndri sérstakri umræðu um tollasamninginn sagði hæstv. ráðherra að gripið yrði til mótvægisaðgerða fyrir íslenska framleiðendur til að mæta þeirri miklu aukningu á innfluttum landbúnaðarvörum sem nú þegar er hafin vegna samningsins. Afleiðingar þessa samnings fyrir innlenda framleiðendur eru miklar og fram hefur komið í máli Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði að verði þessi mikla aukning á tollkvótum til innflutnings fullnýtt gæti svo farið að loka þyrfti starfsstöð MS í Búðardal þar sem 25 manns starfa og er stærsti vinnustaðurinn í Dölunum.

Ég vil því spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra: Hvar er að finna fjárveitingar til þeirra mótvægisaðgerða sem hann hefur boðað í þessu fjárlagafrumvarpi?

Auk þess hef ég ekki komið auga á fjárveitingar til að mæta vanda sauðfjárbænda og loðdýrabænda. (Forseti hringir.) Það væri fróðlegt að heyra hvað ráðherra hyggst gera í þeim málum.