149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:08]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það var ánægjuleg og góð umræða um tollasamninginn við Evrópusambandið, margar hliðar á því máli, mjög skemmtilegar ræðurnar, sumar hverjar. Það er annað hljóð núna í strokknum gagnvart þeim samningi hjá mörgum þeim sem komu að því að gera hann, en ég held að við þurfum líka að hafa í huga að ástæðurnar fyrir því að til þess verks var gengið á sínum tíma voru m.a. hvernig áraði í landbúnaði á Íslandi. Það kom hvatning til íslenskra stjórnvalda einhvern tímann upp úr 2010 eða 2011 um að ganga til samninga við Evrópusambandið um auknar útflutningsheimildir frá Íslandi inn á þann markað. Íslensk stjórnvöld urðu á þeim tíma við þeim óskum, en þurftu að gefa eitthvað á móti.

Ef við segjum upp þessum samningi kann vel að vera að við þurfum að setja niður einhver markmið, þ.e. ef við sjáum þá þingsályktunartillögu sem hér er boðuð verða að veruleika. Ég hef að vísu ekki séð hana og ætla ekkert að tjá mig frekar um hana fyrr en hún kemur fram.

Varðandi það sem hér er nefnt um fjárveitingar til mótvægisaðgerða eða fjárveitingar til stuðnings sauðfjárræktinni eða loðdýraræktinni er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það eru engar sérmerktar fjárveitingar inn í þetta. Eins og ég sagði í framsögu minni áðan er hægur gangur í fjárveitingum eða fjárlögum að því er snertir landbúnaðarmál. Stærsta ástæðan fyrir því er í mínum huga sú að fjárveitingar til málaflokksins eru bundnar í samningi til tíu ára. Hann er allur virtur, það er farið eftir honum af hálfu ríkisins í hvívetna. Það er það svigrúm sem þeim sem hér stendur er skapað af Alþingi (Forseti hringir.) til að gera breytingar á starfsskilyrðum einstakra búgreina.