149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:10]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans áðan og ágætlega skýr svör við því sem hann hefur verið spurður um. Ég er kannski á einhverjum svipuðum nótum og sumir aðrir hér. Ég vil annars vegar beina athyglinni að landbúnaðarmálum og hins vegar að sjávarútvegsmálum.

Ég tek eftir því að þegar ríkisstjórnin kynnti metnaðarfulla áætlun í loftslagsmálum, 6,8 milljarðar á næstu fimm árum, eru m.a. boðaðar aðgerðir er varða kolefnisbindingu og bætta landnotkun. Við erum að horfa að einhverju leyti á endurheimt votlendis og skógrækt. Það sem truflaði mig hins vegar aðeins í þeirri umræðu var að komið hefur í ljós að í þeim samningum sem við eigum núna við Evrópusambandið varðandi það að taka þátt í þessum metnaðarfullu aðgerðum um að minnka losun hér um 40% vegur kolefnisbindingin í sjálfu sér ekkert, þ.e. við fáum ekkert fyrir trjáræktina, skógræktina eða breytta landnýtingu, endurheimt votlendis o.s.frv., það er bara þar sem við drögum úr útblæstri sem við eigum að ná markmiðunum. Við erum því ekki að nýta þau tækifæri sem við höfum en eru kannski ekki til staðar í Evrópusambandinu.

Mig langar til að vita hjá hæstv. ráðherra hvort það væri ekki skynsamlegt, vegna þess að enn þá er hægt að gera einhverjar breytingar, a.m.k. reyna að vinna að breytingum, og ná samkomulagi um að þessi tækifæri okkar verði nýtt og teljist og hvort það sé ekki skynsamlegt að gera það áður en tími rennur út og við verið samstiga í því. Og hvort þetta hafi komið til umræðu í ríkisstjórninni með þessum hætti.