149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:13]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Varðandi loftslagsmálin og aðgerðaáætlunina er þetta eins og kom fram í máli hv. þingmanns gríðarlega mikið og stórt skref sem verið er að stíga og eðlilegt að spurningar komi um það hvernig þeir fjármunir nýtast sem verið er að leggja í þetta. Umræðan hefur verið töluverð um það og bundin því hvort þetta telji inn í bókhaldið okkar, áformin um votlendið, áformin um skógræktina. Það eru skiptar skoðanir um það. Ég held að meginlínan sé sú að þetta telji ekki inn strax. Það þykir mér mjög miður og ræddi það í þessu sambandi út frá mínum málaflokki að landbúnaðurinn á Íslandi, þ.e. matvælahluti hans, landbúnaðurinn, er næststærsti losunargeirinn á eftir samgöngum. Það eru því mörg tækifæri á sviði landbúnaðarmála sem eru þess eðlis að greinin getur lagt inn í það verkefni að stuðla að því að við náum þeim markmiðum sem sett hafa verið.

Mest um vert er að þeir sem starfa í atvinnugreininni, landbúnaði, eru mjög áfram um að leggja sig fram á þessu sviði. Þar eru tækifæri fyrir stjórnvöld til þess að vinna með og í samstarfi við atvinnugreinina. Það er raunar hafið. Sauðfjárræktin er þar fremst í flokki. Við erum með samkomulag milli sauðfjárbænda, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og landbúnaðarráðuneytisins um verkefni sem við komum m.a. inn í sem fyrsta skref. Ég er á þeim stað að hafa fulla trú á því að við getum gert mun betur á því sviði sem snertir landbúnaðinn en við sjáum í áætlun eins og hún lítur út. En það er fullur vilji til þess að taka fleiri og stærri áfanga.