149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:17]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér ekkert skrýtið þó að ég og hv. þingmaður séum á sömu nótum, ekki höfum við lagt það í vana okkar að snuða hvorn annan, svo ég skjóti nú örlítið á hann. Það er alveg rétt að í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum væri æskilegt að hafa hluta af nýjum búvörusamningi. Hluti af hugsuninni er sá að þetta komi inn í það. Það sem rætt er um t.d. varðandi sauðfjárræktina núna eru aðlögunarsamningar og ég tel full færi til þess að tengja þetta því.

Já, það er merkilegt þegar við ræðum skattlagningu, hvort sem það er sjávarútvegur eða aðrar atvinnugreinar, að menn líti á það sem stöðugan tekjustofn, að hann breytist ekkert og við getum alltaf gengið að því sem vísu að fá sömu krónutölu út úr skattlagningu á tekjur einstaklinga eða fyrirtækja. Það er ekki þannig. Tekjuskatturinn sveiflast upp og niður. Með sama hætti hefur álagningu veiðigjalds í sjávarútvegi verið ætlað að taka mið af afkomunni og eðlilega sveiflast hún til. Ég heyri hins vegar að þingmenn gráta það mjög að sjávarútvegur skuli ekki alltaf vera í hæstu hæðum í afkomu. Á margan hátt get ég grátið það líka, hann leggur það mikið til þjóðfélagsins, en það er því miður bara ekki veruleikinn. Afkoman sveiflast eftir fjölda þátta eins og mörkuðum og öðru því um líku, samkeppnisstöðu sjávarútvegsins á erlendum mörkuðum. Við erum á margan hátt að skekkja hana, t.d. með álagningu síðasta skatts ofan á tekjuskatta, sem er auðlindagjaldið, með álagningu sérstaks skatts á eldsneyti, sem er kolefnisgjaldið. Þetta eru skattar sem sjávarútvegur í næstu löndum okkar greiða ekki með sama hætti.

Auðlindagjald í fiskeldi kemur vonandi fram í febrúar. Vinnan við þessa úttekt hefst, (Forseti hringir.) ég hef reyndar ekki dagsetningu á því. Við erum enn að ræða með hvaða hætti við förum til þessa verks, en það verður unnið.