149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:24]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti Í frumvarpi til fjárlaga 2019 er gert ráð fyrir ríflega 68 milljörðum kr. til verkefna og framkvæmda á ábyrgðarsviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, þ.e. 7,4% af heildargjöldum ríkissjóðs. Hækkunin á milli ára er rúmlega 5,6 milljarðar sem bætast ofan á 4,5 milljarða kr. hækkun ársins á undan. Gert er ráð fyrir að heildarframlag til samgöngumála nemi um 41,3 milljörðum sem er aukning um 12,3% á milli ára. Samgönguframkvæmdir ná yfir framkvæmdir á vegum, innanlandsflugi og höfnum og er hlutfall þeirra um 1,5% af vergri landsframleiðslu. Aukningin er mest til vegaframkvæmda, til þeirra fara 23,5 milljarðar. Alls hafa framlög til vegaframkvæmda verið hækkuð um þriðjung frá fjárlögum 2017 á verðlagi hvers árs, úr 17,7 milljörðum í 23,5 eins og áður sagði.

Það er gert ráð fyrir hækkun í nánast öllum öðrum verkefnum sem falla undir samgöngumál. Má þar nefna snjómokstur, hálkuvarnir, styrki til almenningssamgangna og framlög til flugvalla.

Þrátt fyrir verulega hækkun er enn þörf á að bæta í bæði viðhald og framkvæmdir á vegum en það er ljóst að mikið verk er óunnið við að byggja upp samgöngukerfið allt og færa til ásættanlegs horfs. Engu að síður munar verulega um þá hækkun framlaga sem kynnt er í frumvarpi til fjárlaga næsta árs. Landsmenn munu vonandi fljótt verða varir við þann ávinning sem hlýst af stórauknu fé til viðhalds vega en það eykst um 2 milljarða á milli ára og verður 10 milljarðar á næsta ári. Skemmst er frá því að segja að einungis fyrir þremur árum var viðhaldsfé innan við 6 milljarða.

Þá nema framlög til nýframkvæmda í vegakerfinu tæplega 14 milljörðum á næsta ári. Síðar í mánuðinum vonast ég til að geta kynnt í þinginu samgönguáætlun til næstu fimm og fimmtán ára og ég hlakka til uppbyggilegrar umræðu um það við þingmenn.

Af fjarskiptum er það helst að áfram er unnið að landsátakinu í lagningu ljósleiðara, Ísland ljóstengt, þar sem er markaðsbrestur en áætlað er að verkefnið klárist 2021 samkvæmt áætlunum. Komandi ár er fjórða árið sem ríkið styrkir ljósleiðaravæðingu sveitarfélaga með fjárveitingum gegnum fjarskiptasjóð en sá stuðningur hefur numið um 450 milljónum á ári hverju. Nú þegar hefur verið samið um styrki til ljósleiðaratengingar á 4.000 stöðum og á næstu þremur árum verður samið um þá 1.500 staði sem eftir standa.

Þá verða netöryggismál tekin föstum tökum, en hér á landi stöndum við veikar að vígi hvað varðar netöryggi í sambandi við varnarmál og gæði hugbúnaðar hérlendis en víða í sambærilegum löndum. Mikilvægt er að efla þessi mál og mun ég leggja fram fjarskiptaáætlun sem og frumvarp um netöryggismál innan skamms í haust og treysti á samstöðu þingsins í að koma þeim mikilvægu málum í betra horf.

Í póstmálum er áformað að afnema einkarétt og opna markaðinn fyrir samkeppni um leið og alþjónusta verður tryggð.

Framlög til byggðamála aukast um 4,9% og nema nú ríflega 2 milljörðum kr. Þar af fer ríflega helmingur til byggðaáætlunar og sóknaráætlana landshluta, tæplega 1,1 milljarður kr. Fjárveitingar til þessara áætlana hafa hækkað mikið frá árinu 2014 þegar þær námu ríflega 400 millj. kr. Fjárveitingin verður vel nýtt eins og þingmenn geta kynnt sér í nýsamþykktri byggðaáætlun sem fór í gegnum þingið í vor, þ.e. fyrir árin 2018–2024. Um síðustu mánaðamót var opnað fyrir umsóknir um framlög sem veitt eru til sértækra verkefna sóknaráætlanasvæða og á næstunni verður opnað fyrir umsóknir um framlög á grundvelli einstakra aðgerða byggðaáætlunar, m.a. á sviði almenningssamgangna, verslunar í strjálbýli og fjarvinnslustöðva.

Að lokum má geta þess að fjárheimildir til Þjóðskrár Íslands lækka um 3,6% á milli ára og verða tæplega 1,9 milljarðar kr. Það skýrist einkum af því að tímabundin framlög falla niður, annars vegar framlag tengt landamærum og hins vegar framlag til smíði á nýju þjóðskrárkerfi, en að því er unnið í áföngum og því mun hægja á þróun þess kerfis. Endurbætur á þjóðskrárkerfinu hafa þegar leitt til þess að öll vottorð og tilkynningar úr þjóðskrá og fasteignaskrá eru nú afhent með rafrænum hætti á island.is. Þá eru nú í fyrsta skipti einstaklingar skráðir niður á íbúðir og upplýsingar um fjölskylduvensl og forsjá aðgengilegar.

Ég hef lokið máli mínu, herra forseti, og farið yfir helstu þætti varðandi fjárlagafrumvarp 2019.